Tenglar

10. janúar 2012 |

Mesti snjóruðningsvetur síðan fyrir Gilsfjarðarbrú

Erlingur við gamla góða Benzann.
Erlingur við gamla góða Benzann.
1 af 4

Erlingur Jónsson vörubílstjóri á Reykhólum hefur í samræmi við tíðarfarið átt annríkara við snjóruðing á þjóðvegum á þessum vetri en í mjög mörg ár á undan. „Þetta hefur ekki verið svona síðan fyrir Gilsfjarðarbrú“, segir hann, en þverun fjarðarins komst í gagnið í nóvember árið 1998. Svæðið sem Erlingur þjónar er austurhluti hins víðlenda Reykhólahrepps eða allt frá Gilsfirði á austurmörkum og vestur í Kollafjarðarbotn og hefur snjóruðningurinn verið í hans höndum í fjórðung aldar. Þegar ryðja þarf leggur hann venjulega af stað milli hálfsex og sex á morgnana og samkvæmt núgildandi reglum er rutt fimm daga vikunnar.

 

Búnaðurinn sem Erlingur notar til ruðnings og hálkuvarnar er þrenns konar: Plógur framan á bílnum, tönn undir honum og á pallinum er gámur með saltblönduðum sandi til hálkuvarnar ásamt dreifara. Erlingur kveðst nota tönnina undir bílnum töluvert. Hálkuvörninni er ekki dreift alls staðar heldur fyrst og fremst á varasama staði, í brekkur og krappar beygjur. Sand- og saltblanda þessi sem Vegagerðin leggur til er geymd í bing niðri í Þörungaverksmiðju.

 

Benzinn hans Erlings er gamall en góður, árgerð 1979 eða aldarþriðjungsgamall. „Nei, ég segi nú ekki að þessir bílar endist endalaust, en þeir duga lengi með góðu viðhaldi. Í vinnu af þessu tagi borgar sig ekki að vera með dýr tæki“, segir hann.

 

Erlingur Jónsson er frá Skálanesi við mynni Þorskafjarðar að vestanverðu, bróðir Hallgríms sem þar hefur búið alla sína tíð. Erlingur hefur verið búsettur á Reykhólum síðustu fjörutíu árin eða þar um bil.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31