Tenglar

13. maí 2016 |

Mestu línubrot í sögu Orkubús Vestfjarða

Hluti myndar á forsíðu ársskýrslu OV fyrir árið 2015.
Hluti myndar á forsíðu ársskýrslu OV fyrir árið 2015.

Hagnaður varð af venjubundnum rekstri Orkubús Vestfjarða á síðasta ári, ellefta árið í röð. Framleiðsla vatnsaflsvirkjana Orkubúsins var góð eða um 93 GWh og jókst um rúm 10% frá fyrra ári. Samt er afkoma OV ekki viðunandi, hvort sem horft er til fjárfestingarþarfar fyrirtækisins eða ávöxtunar eigin fjár, þrátt fyrir nokkurn hagnað. Afkoman er nokkuð lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir og skýrist af kostnaðarauka OV vegna launahækkana og óveðurstjóna á háspennulínum.

 

Þetta kom í skýrslu Kristjáns Haraldssonar orkubússtjóra á aðalfundi Orkubúsins, sem haldinn var á Ísafirði á mánudag.

 

Nokkrar óveðurslægðir fóru yfir Vestfirði á síðasta ári og sú sýnu versta í byrjun desember. Þetta óveður grandaði tæplega 200 staurum í loftlínum OV á Vestfjörðum. Fyrr á árum hefðu þessir atburðir valdið fleiri sólarhringa rafmagnsleysi í þéttbýli og dreifbýli, en með varaaflsstöð Landsnets í Bolungarvík, strenglögnum OV á liðnum árum og auknum viðbúnaði með varaaflsvélum varð straumleysi hjá notendum í lágmarki, þrátt fyrir mestu línubrot í sögu OV. Þó urðu fáeinir notendur í dreifbýli rafmagnslausir í nokkra sólarhringa.

 

Af helstu framkvæmdum má nefna að lagður var um 100 km langur háspennustrengur milli Borðeyrar og Hólmavíkur. Strengurinn var lagður samhliða lagningu ljósleiðara og er þetta sennilega lengsti kafli sem veitufyrirtæki hefur boðið út í einni framkvæmd á Íslandi. Lokið var við endurnýjun Fossárvirkjunar, að undanskildum lóðarfrágangi, og virkjunin tekin í rekstur. Vegna mikilla fjárfestinga síðustu ára hefur OV þurft að taka umtalsverð lán.

 

Eignir Orkubús Vestfjarða ohf. í árslok 2015 voru alls 7.770 milljónir króna og heildarskuldir alls 2.033 milljónir. Eigið fé nam því alls 5.737 milljónum, sem er um 74 % af heildarfjármagni. Á aðalfundinum var samþykkt að greiða 60 milljón króna arð til hluthafa.

 

Í stjórn Orkubús Vestfjarða ohf. voru kosin:

  • Viðar Helgason, Reykjavík
  • Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, Tálknafirði
  • Daníel Jakobsson, Ísafirði
  • Viktoría Rán Ólafsdóttir, Hólmavík
  • Halla Signý Kristjánsdóttir, Bolungarvík 

Í varastjórn voru kosin:

  • Ragnheiður Hákonardóttir, Ísafirði
  • Steinþór Bjarni Kristjánsson, Flateyri
  • Kristinn Hjörtur Jónasson, Kópavogi
  • Magni Hreinn Jónsson, Ísafirði
  • Óskar Torfason, Drangsnesi

Nýkjörin stjórn kom síðan saman til fundar og skipti með sér verkum. Viðar Helgason var kjörinn formaður stjórnar, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir varaformaður og Viktoría Rán Ólafsdóttir ritari.

 

Ársskýrsla Orkubús Vestfjarða ohf. 2015 (pdf)

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31