Tenglar

5. ágúst 2008 |

Metfjöldi í Grettislaug á Reykhólum í sumar

Grettislaug (hin nýrri) á Reykhólum.
Grettislaug (hin nýrri) á Reykhólum.
1 af 4

Aðsókn að Grettislaug á Reykhólum hefur í sumar verið meiri en nokkru sinni fyrr enda hefur veðurblíðan verið alveg einstök. Núna um verslunarmannahelgina (frá föstudegi til mánudags) voru gestir laugarinnar 649 á móti 311 á sama tíma í fyrra. Mest munar þar um laugardaginn þegar 247 gengu til laugar á Reykhólum. Í maímánuði voru laugargestir 454 (358 í sama mánuði í fyrra), í júní 1.498 (1.509) og í júlí 2.573 (2.052). Alls voru því laugargestir 4.720 frá júníbyrjun og þar til lokað var klukkan tíu í gærkvöldi en voru 3.872 á sama tímabili í fyrra.

 

Heimafólk á Reykhólum og víða úr Reykhólahreppi sækir laugina mikið árið um kring. Yfir háveturinn þegar aðsóknin er minnst er hún samt að jafnaði meiri í hverjum mánuði en sem nemur íbúafjölda sveitarfélagsins. Yfir sumarið er mikið um ferðafólk í lauginni eða í heitu pottunum eða bara í sólbaði enda er tjaldsvæðið alveg þar hjá (mynd 4 er tekin við laugarendann og sér þar niður á tjaldsvæðið). Nýir pottar eru komnir á staðinn og kveðst Dísa Sverrisdóttir forstöðumaður Grettislaugar vonast til að þeir komist í gagnið áður en langt um líður.

 

Grettislaug er 25 metra útilaug með heitum pottum og leiktækjum og verður að teljast ein þeirra allra bestu á Vestfjarðakjálkanum. Nafnið hlaut sundlaugin eftir Grettislaug hinni gömlu sem er í brekkunni þar rétt fyrir ofan. Þar eru nú einungis gamlar friðlýstar steinhleðslur en ekkert vatn því að laugin þornaði upp þegar borað var eftir heitu vatni þar skammt frá á sínum tíma (myndir nr. 2 og 3). Til eru ljósmyndir af konum að þvo þvott í hinni gömlu Grettislaug um miðbik nýliðinnar aldar eða nokkru fyrr.

 

Nafnið Grettislaug á rætur að rekja til veturvistar Grettis Ásmundarsonar og þeirra fóstbræðranna Þorgeirs Hávarssonar og Þormóðar Kolbrúnarskálds á Reykhólum fyrir tæplega þúsund árum. Þeim ofstopamönnum var „komið í sveit“ hjá Þorgilsi Arasyni stórhöfðingja á Reykjahólum, en honum þótti lagið að hemja slíka menn. Hjá honum var fyrsta „upptökuheimilið“ sem getið er hérlendis, en ekki það síðasta. Í Grettis sögu segir svo:

 

Það var einn dag nokkuð eftir jól að Grettir fór í laug einn saman. Þorgeir vissi það og mælti við Þormóð:

 

„Förum við til og vitum hversu Gretti bregður við ef eg ræð á hann, þá er hann fer frá lauginni."

 

„Ekki er mér um það", sagði Þormóður, „og muntu ekki gott fá af honum."

 

„Fara vil eg þó", sagði Þorgeir. Snýr hann nú ofan á brekkuna og bar hátt öxina. Grettir gekk þá neðan frá lauginni og er þeir fundust mælti Þorgeir:

 

„Er það satt Grettir", sagði hann, „að þú hefir það mælt að þú skyldir aldrei renna fyrir einum?"

 

„Eigi veit eg það svo víst", sagði Grettir, „en skammt hefi eg fyrir þér runnið", kvað Grettir.

 

Þorgeir reiddi þá upp öxina. Í því hljóp Grettir undir Þorgeir og færði hann niður allmikið fall. Þorgeir mælti þá til Þormóðar:

 

„Skaltu standa hjá er fjandi sjá drepur mig undir sér?"

 

Þormóður þreif þá í fætur Gretti og ætlaði að draga hann ofan af Þorgeiri og fékk ekki að gert. Hann var gyrður saxi og ætlaði að bregða. Þá kom Þorgils bóndi að og bað þá vera spaka og fást ekki við Gretti. Þeir gerðu svo og sneru þessu í gaman. Ekki áttust þeir fleira við svo að getið sé. Þótti mönnum Þorgils mikla gæfu til hafa borið að stilla slíka ofstopamenn. En er vora tók fóru þeir á burt allir.


Grettislaug er opin frá klukkan tíu á morgnana til klukkan tíu á kvöldin fram til 17. ágúst. Síðan verður opið kl. 14-22 til ágústloka en þá tekur vetrartími við (kl. 17-21). Dísa Sverrisdóttir hefur verið forstöðumaður laugarinnar síðustu sex-sjö árin. Smellið á myndirnar til að stækka.
  

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31