Miðaldafólk frá Reykhólum í kaupstaðarferð
Hjalti Hafþórsson á Reykhólum fór ásamt fjölskyldu sinni og jafnframt Vatnsdalsbátnum á miðaldahátíðina á Gásum við Eyjafjörð fyrir tveimur vikum. Þar klæddust þau á þann hátt sem hæfði þessum forna verslunarstað eins og hér má sjá. Báturinn sem Hafþór smíðaði með dyggri aðstoð föður síns eftir leifum sem fundust í kumli í Vatnsdal við Patreksfjörð fyrir hálfri öld á að baki öllu fleiri sjómílur (rastir, skyldi maður heldur segja í þessu tilviki) á landi en sjó.
Fyrst kom báturinn frá Siglufirði að Reykhólum, þaðan fór hann að Hnjóti í Örlygshöfn við Patreksfjörð, síðan norður á Gásir með viðkomu á Reykhólum og núna er hann aftur kominn að Hnjóti. Landleiðina í öllum tilvikum.
Guli Landróverinn sem Hjalti hefur notað til að flytja bátinn er eldri en Reykhólakirkja (50 ára vígsluafmæli eftir rúman mánuð). Hann er hins vegar ríflega þúsund árum yngri en báturinn í kumlinu í Vatnsdal.
Gásir eru við Hörgárósa í Eyjafirði, um 11 km norðan við Akureyri. Hvergi á landinu eru varðveittar eins ríkulegar mannvistarleifar frá verslunarstað á miðöldum. Gásir voru helsti verslunarstaður á Norðurlandi á þeirri tíð og staðarins víða getið í fornritum frá 13. og 14. öld.
Margar fleiri myndir frá miðaldahátíðinni á Gásum (og ógrynni af efni sem tengist áhugamálinu bátasmíðum beint og óbeint) er að finna á bátasmíðavef Hjalta.
Sjá einnig:
► 03.03.2013 Fær veglegan ráðuneytisstyrk til smíði annars báts