Tenglar

18. desember 2012 |

Mikið úrval jólabóka í búðinni á Reykhólum

Fyrsti árgangur Almanaks Hins íslenska þjóðvinafélags.
Fyrsti árgangur Almanaks Hins íslenska þjóðvinafélags.

Margar af vinsælustu bókunum hérlendis fyrir þessi jól fást í Hólakaupum á Reykhólum eða nærri 60 titlar. Bókin um Gufudalshrepp seldist upp þar og kláraðist hjá útgefanda en önnur prentun er að koma úr prentsmiðju. Von er á ritinu í Hólakaup á morgun ásamt fleiri bókum Vestfirska forlagsins sem voru á þrotum. Jafnframt er Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags fyrir árið 2013 á leiðinni í Hólakaup, en þetta yfirlætislausa rit sem lítt eða ekki er auglýst á sér stóran og tryggan hóp kaupenda.

 

Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags kom fyrst út árið 1875 og hefur komið út árlega síðan. Almanakið var sett saman af Íslandsalmanaki háskólans í Kaupmannahöfn, sem hóf göngu sína árið 1837, og ýmsu öðru efni til gagns og fróðleiks fyrir alþýðu manna. Árið 1923 færðist útgáfa og útreikningar Íslandsalmanaksins frá Kaupmannahöfn til Íslands og hefur svo verið síðan.

 

Dr. Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur hefur séð um útreikninga almanaksins allar götur frá 1964, fyrst ásamt Trausta Einarssyni prófessor en einn síns liðs frá 1969. Í almanakinu er m.a. að finna dagatal með upplýsingum um gang himintungla, messur kirkjuársins, sjávarföll, hnattstöðu Íslands o.fl.

 

Strax í fyrsta árgangi birtist Árbók Íslands, sem hefur átt þar sinn sess árlega síðan. Þar er fróðleikur um árferði, atvinnuvegi, stjórnmál, úrslit Íslandsmóta, náttúruhamfarir, slys, mannalát, verklegar framkvæmdir, vísitölur, verðlag o.s. frv. Í ritinu er fjöldi mynda. Heimir Þorleifsson sagnfræðingur hefur haft umsjón með ritun þessa hluta bókarinnar allt frá 1983.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31