Mikill áhugi á forsetakosningunum í Flatey
Í gær, mánudag, var atkvæðagreiðsla utan kjörfundar í „Frystihúsinu“ í Flatey á Breiðafirði á vegum Sýslumannsins á Vestfjörðum. Alls eru sex íbúar skráðir með lögheimili í eynni, sem heyrir undir Reykhólahrepp. Skemmst er frá því að segja að allir íbúarnir voru á staðnum og nýttu kosningarétt sinn, og raunar gott betur, því 16 aðkomumenn nýttu tækifærið og greiddu atkvæði utan kjörfundar í Flatey þennan dag.
Þannig hefst póstur frá Jónasi Guðmundssyni sýslumanni. Síðan segir þar:
Það var því í nógu að snúast hjá starfmönnum embættisins, sem fóru með Breiðafjarðarferjunni Baldri frá Brjánslæk á Barðaströnd og höfðu viðdvöl í eynni meðan hún sigldi til Stykkishólms og til baka, en talsverð skriffinnska fylgir atkvæðagreiðslu utan kjörfundar á stöðum þar sem ekki er beint tölvusamband við atkvæðagreiðslukerfið.
Óhætt er því að segja að mikill áhugi sé á forsetakosningunum í Flatey á Breiðafirði. Margir kjósendur lýstu yfir mikilli ánægju sinni með að geta greitt atkvæði í eynni í stað þess að þurfa að fara upp á „fastalandið“ til að greiða atkvæði þar.
Á morgun, miðvikudag, verður boðið upp á að greiða atkvæði utan kjörfundar á Reykhólum og verður fróðlegt að vita hvort þátttaka íbúa Reykhólahrepps sem á fastalandinu búa verði eins góð og í Flatey.