Tenglar

26. janúar 2010 |

Mikill kraftur í Barðstrendingafélaginu í Reykjavík

Barðstrendingafélagið í Reykjavík er sífellt að efla starfsemi sína á ný, nú síðast með opnum húsum sem verða æ vinsælli. Opnu húsin eru mánaðarlega, alltaf á miðvikudögum. Annað kvöld eða þann 27. janúar verður þorraþema þar sem boðið verður upp á þorramat í bitum, skemmtiatriði og söng. Að þessu sinni verður Reykhólasveitin í stóru hlutverki þar sem sungin verða lög eftir Guðlaug Theódórsson og Ebenezer Jensson og textar verða meðal annars eftir Jón Snæbjörnsson og Aðalheiði Hallgrímsdóttur. Það er hljómsveitin Um það bil kvart úr Tungunni sem flytur en hún er skipuð mæðgum frá Mýrartungu I og II.

 

Þetta kemur fram í kærkomnu tilskrifi frá Ólínu Kristínu Jónsdóttur frá Mýrartungu II. Og áfram heldur hún með upplýsingar um starf Barðstrendingafélagsins.

 

Í febrúar verður haldinn fyrirlestur um streitustjórnun á opnu húsi. Það er Inga Hrefna Jónsdóttir, sálfræðingur frá Mýrartungu II, sem flytur. Hún hefur tvisvar áður haldið fyrirlestra hjá okkur og hlotið mjög góðar undirtektir enda lifandi og fræðandi fyrirlestrar hjá henni.

 

Í mars verður hagyrðingakvöld sem við hefjum á smá bragfræðikennslu, að öllum líkindum verður það Ragnar Ingi Aðalsteinsson sem færir okkur í allan sannleika um hvernig á að yrkja vísu svo vel sé. Ekki er ólíklegt að einhverjir hagyrðingar verði úr austursýslunni.

 

Í apríl kveðjum við vetur og fögnum sumri á opnu húsi. Þar verður ýmislegt sér til gamans gert og gæti verið að sett yrði upp leikrit á staðnum! Fólk er hvatt til að taka með sér drykkjarföng við hæfi þennan síðasta vetrardag.

 

Af föstum liðum framundan má nefna aðalfund félagsins og Vorfagnað Kvennadeildar í apríl, Heiðmerkurdag og Jónsmessuferð Kvennadeildar í júní og sumarferð félagsins í ágúst.

 

Af liðnum atburðum má nefna 65 ára afmælishátíð félagsins sem haldin var í október. Hún heppnaðist með eindæmum vel, 3ja rétta máltíð, skemmtiatriði og dansleikur. Fjáröflunardagur Kvennadeildar var í nóvember, jólavaka í desember og svo voru haldin þrjú opin hús í haust, réttarþema, jólakortagerð og ljóðakvöld.

 

Félagið heldur úti heimasíðunni http://bardstrendingar.123.is. Einnig er hópur á Facebook sem heitir Barðstrendingafélagið í Reykjavík og þar reynum við að minna á það sem er að gerast. Netfang félagsins er bardstrendingar@internet.is.

 

Formaðurinn okkar er Snorri Jóhannesson frá Bæ á Bæjarnesi. Hjá honum er hægt að kaupa Árbækur félagsins. Síminn hjá Snorra er 555 1721.

 

Undirrituð er í ritstjórn Sumarliða pósts, fréttabréfs félagsins sem kemur út fimm sinnum á ári. Ef þið eigið eitthvert efni í blaðið má gjarnan senda það á olinak@talnet.is.

 

Ef fólk hefur áhuga á að ganga í félagið er hægt að hafa samband við undirritaða eða formann.

 

Með bestu kveðju,

- Ólína Kristín Jónsdóttir frá Mýrartungu II.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30