Tenglar

6. júní 2009 |

Mikilvægt að finna nýjan orkugjafa í Flatey

Úr Flatey á Breiðafirði.
Úr Flatey á Breiðafirði.

Orkubú Vestfjarða varði einni milljón króna til rannsókna á straumum og sjávarföllum við Flatey á Breiðafirði á síðasta ári. Raforkukerfið í eynni er ekki tengt landskerfinu með sæstreng. Markaðurinn er lítill, um 50 megavattstundir á ári, og öll raforkan framleidd með dísilvélum. Kostnaðurinn er því mikill og áhugavert að finna nýjan orkugjafa. Í Breiðafirði er mesti munur á flóði og fjöru á landinu og fyrst núna er kominn kraftur í þróun á hverflum sem hægt er að setja niður í sjóinn og vinna raforkuna beint úr straumum. Með góðum þekkingargrunni er unnt að koma af stað tilraunaverkefni í Flatey, minnst 100 kW, með styttri fyrirvara en ella, bjóðist hentugur búnaður.

Ávinningurinn er meiri en víðast hvar annars staðar vegna þess að orkugjafi Flateyjar er nú olía.

 

Þetta kemur fram í nýútkominni ársskýrslu Orkubús Vestfjarða.

Lokaverkefni nemenda á háskólastigi hafa verið unnin, þar sem m.a. var skoðað annað eldsneyti sem yrði flutt út í eyna, eins og metangas og vetni. Einnig samkeyrsla á vindmyllu og hefðbundnum vélum, en útkoman var ávallt sú sama, að stofnkostnaður á nýjum búnaði er of hár miðað við stærð á markaði.

Á síðustu tveimur árum hefur verið reynt að blása meiri krafti í athuganir sem þessar með því að bæta við fleiri samstarfsaðilum eins og Nýsköpunarmiðstöð auk fleiri aðila og reynt að styrkja þær, m.a. úr Orkusjóði, en án árangurs. Vinnuheiti verkefnisins var „Sjálfbær Flatey" og með því á m.a. að kanna hagkvæmni og bera saman vindmyllu- og sjávarfalla- og ölduvirkjanir.

Leitað var eftir samstarfi við Siglingastofnun í ár við að ljúka flóðhæðarmælingu við bryggjuna í eynni og OV er að ljúka við straummælingar á virkjunarstað. Engar rannsóknir verða gerðar á öldufari að sinni. Sýreyjarsund hentar best vegna nálægðar við eyjuna. Afar fáir framleiðendur á vélbúnaði í heiminum hafa náð það langt að hafa smíðað tæki sem er komið í rekstur og getur framleitt raforku úr sjávarstraumum.

Stefnt er að því að hentugt verkefni gæti farið af stað á árunum 2010-12.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31