Miklar slitlagslagnir að undanförnu
Einnig lagði vinnuflokkur þessi nýtt slitlag á stóra kafla af veginum frá vegamótunum skammt frá Bjarkalundi og út að Reykhólum, en sú leið er um 14 kílómetrar. Sumir kaflar þessarar leiðar sem voru í góðu lagi voru látnir eiga sig. Aðrir voru orðnir mjög þurfandi fyrir nýtt slitlag þar sem á undanförnum árum var komin bót við bót og jafnvel bót á bót ofan en eru nú í hinu besta standi.
Áður var búið að leggja nýtt slitlag á langa kafla á leiðinni frá Gilsfjarðarbrú og vestur undir Bjarkalund og líka í Saurbænum og suður um Dali. Stökkpallarnir vinsælu á veginum í Saurbænum eru þó enn á sínum stað eins og þeir verða óþyrmilega varir við sem aka eitthvað að ráði yfir leyfilegum hraða.
Nokkur ár eru síðan komið var bundið slitlag á alla leiðina milli Reykjavíkur og Reykhóla. Leiðin yfir Svínadal var síðasti kaflinn sem eftir var en þar var síðan lagður nýr vegur.