Miklar umræður um stjórnsýslu í Flatey á Breiðafirði
Meðal þess sem rætt var á aðalfundi Framfarafélags Flateyjar (FFF) voru hugmyndir um uppsetningu vefmyndavéla í Flatey, ástand og öryggismál bryggjunnar, sjóvarnir, samstarf vegna friðlandsins í Flatey, kynningarrit um Flateyjarkirkju og störf hinnar nýstofnuðu dreifbýlisnefndar Reykhólahrepps.
Miklar umræður urðu um stjórnsýslu í Flatey, sem heyrir undir Reykhólahrepp, fyrst í umræðum um skýrslu stjórnar, síðan þegar fjárhagsáætlun var rædd og loks undir liðnum önnur mál. Eins og rækilega hefur verið greint frá hér á vefnum hafa komið fram eindregnar óskir um að Flatey færist undir Stykkishólm og jafnframt verið greint frá viðbrögðum vegna þeirra óska.
Hér hafa aðeins verið nefndir fáeinir punktar úr mjög efnismikilli fundargerð aðalfundarins, sem komin er inn á vef Framfarafélagsins.
Gyða Steinsdóttir (Sunnuhvoli) var endurkjörin formaður FFF. Auk hennar voru endurkjörin í stjórn þau Kristín S. Ingimarsdóttir (Sólbakka) og Daði Heiðar Sigurþórsson (Bræðraminni). Vegna reglunnar um sex ára hámarkssetu gengu úr stjórn að þessu sinni Hörður Gunnarsson (Vesturbúðum) og Svava Sigurðardóttir (Eyjólfshúsi vestur). Í stað þeirra voru kjörin Bylgja Baldursdóttir (Byggðarenda) og Hilmir Bjarnason (Bergi).