Milljarðar skornir af kúa- og sauðfjárbændum?
Sauðfjár- og kúabændur taka á sig 1,6 til 2,4 milljarða króna eða meira í skerðingar á næstu fjórum til sex árum skv. samkomulagi við ríkisvaldið. Atkvæði um þetta verða greidd meðal bænda í lok mánaðarins. Garðyrkjubændur standa utan við samkomulagið. Þeir vilja að hækkun raforkuverðs frá 1. febrúar verði tekin aftur.
Forysta Bændasamtaka Íslands og Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs-, landbúnaðar- og fjármálaráðherra, skrifuðu 18. apríl undir samkomulag um breytingar á starfsskilyrðum sauðfjárræktar og mjólkurframleiðslu. Samkomulagið hefur í för með sér umtalsverðar skerðingar á framlögum ríkisins til búgreinanna eða um eða yfir 200 milljónir króna í hvorri grein á ári.
Garðyrkjubændur treystu sér ekki til að skrifa undir samkomulagið vegna fjórðungs hækkunar á rafmagni 1. febr. sem Einar K. Guðfinnsson fyrrverandi landbúnaðarráðherra ákvað. Þeir vilja að fallið verði frá hækkuninni og eiga nú í viðræðum við ríkið vegna þess. Samkvæmt heimildum mbl.is verða ákvæði um stuðning í einhverju formi til handa garðyrkjubændum í sáttmála ríkisstjórnar Samfylkingar og VG.
Verið er að útbúa kjörskrár fyrir sauðfjár- og kúabændur og lýkur því í byrjun næstu viku. Þá verða kjörseðlar sendir bændum en atkvæðagreiðsla hefst 15. maí. Greidd verða atkvæði í póstkosningu og lýkur atkvæðagreiðslu 29. maí. Atkvæði verða talin 2. júní. Þá kemur í ljós hver verða afdrif samkomulags ríkisins og forystu bænda vegna sauðfjárræktar og mjólkurframleiðslu.
- Byggt á fréttum Morgunblaðsins og mbl.is 7. maí.