Tenglar

1. ágúst 2016 | Umsjón

Minningarmót Birnu E. Norðdahl á Reykhólum

Birna á forsíðu Tímaritsins Skákar.
Birna á forsíðu Tímaritsins Skákar.
1 af 5

Skákmót í minningu Birnu E. Norðdahl verður haldið á Reykhólum 20. ágúst. Meðal þeirra sem hafa boðað komu sína eru Friðrik Ólafsson og Jóhann Hjartarson og kvennaskákmeistararnir Guðlaug Þorsteinsdóttir, Áslaug Kristinsdóttir og Sigurlaug Friðþjófsdóttir. Birna átti heima á Reykhólum síðasta áratug ævinnar og þar má enn sjá handaverk hennar. Kannski er hennar ekki fyrst og fremst minnst sem tvöfalds Íslandsmeistara í skák, þó að það sé ærin ástæða, heldur enn frekar sem helsta frumkvöðuls að þátttöku íslenskra skákkvenna í keppni á erlendum vettvangi. Birna var orðin langamma þegar hún tefldi á Ólympíuskákmótinu á Möltu árið 1980.

 

Skipuleggjendur hafa sent frá sér eftirfarandi tilkynningu:

 

Minningarmót Birnu E. Norðdahl verður haldið á Reykhólum við Breiðafjörð laugardaginn 20. ágúst og hefst kl. 14. Mótið er öllum opið og meðal keppenda verða margar helstu hetjur íslenskrar skáksögu: Friðrik Ólafsson, Jóhann Hjartarson, Guðlaug Unnur Þorsteinsdóttir, Áslaug Kristinsdóttir og Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir. Tefldar verða 8 umferðir með 10 mínútna umhugsunartíma. Teflt verður í íþróttahúsinu á Reykhólum og verða veitingar í boði meðan á mótinu stendur.

 

Aðeins er tæplega þriggja klukkustunda akstur frá höfuðborgarsvæðinu vestur í hina fögru Reykhólasveit. Gestum býðst gisting á tilboðsverði á Hótel Bjarkalundi, Reykhólar Hostel og landnámsbænum Miðjanesi skammt frá Reykhólum. Um kvöldið er verðlaunaafhending og hátíðarkvöldverður í minningu Birnu.

 

Birna Eggertsdóttir Norðdahl fæddist á Hólmi í Reykjavíkursókn í Kjósarsýslu 30. mars 1919. Hún andaðist á sjúkrahúsinu á Akranesi 8. febrúar 2004. Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir minntist stallsystur sinnar og fyrirmyndar m.a. með þessum orðum:

 

„Birna var alveg einstök manneskja. Hún var bæði bóndi og listamaður: bjó lengst af í Bakkakoti fyrir utan Reykjavík, hafði þar hesta sem hún heyjaði fyrir, málaði myndir, vann úr leðri, skar út í tré auk þess sem hún gerði alla hefðbundna handavinnu og alla smíðavinnu innanhúss sem og utanhúss. Síðast en ekki síst var hún skákkona og á því sviði frumkvöðull að því að íslenskar konur tefldu fyrir Íslands hönd á Ólympíumótum í skák.“

 

Birna var í fyrsta kvennalandsliði Íslands í Buenos Aires 1978. Hún stóð fyrir fjársöfnun svo af ferðinni gæti orðið og dreif aðra áfram með eldmóði sínum. Áður hafði Birna teflt undir fána Íslands í Sex landa keppninni 1975. Hún var aftur í liði Íslands sem tefldi á Ólympíuskákmótinu á Möltu 1980, þá orðin langamma. Íslandsmeistari varð hún 1976 og 1980. Birna skipar stórmerkan sess í íslenskri skáksögu og við þetta tækifæri vilja mótshaldarar heiðra aðra brautryðjendur íslenskrar kvennaskákar. Vonast er til þess að skákkonur á öllum aldri taki þátt í mótinu, sem og skákáhugamenn úr öllum áttum.

 

Ástæða þess að mótið er haldið á Reykhólum er sú, að þar átti Birna heima síðasta áratug ævi sinnar. Rétt við Dvalarheimilið Barmahlíð bjó hún til Birnulund, eins og hann var nefndur, hlóð hringlaga skjólvegg úr torfi, smíðaði bekki og gróðursetti trjáplöntur og blómjurtir. Lundurinn fór í órækt eftir að Birna féll frá. Í tengslum við aðrar framkvæmdir á vegum Reykhólahrepps í umhverfi Barmahlíðar verður Birnulundur endurskapaður til heiðurs þessari merku konu og steinstétt inni í honum verður skákborð [sjá mynd nr. 5].

 

Meðal bakhjarla og skipuleggjanda Minningarmótsins eru Reykhólahreppur, Þörungaverksmiðjan á Reykhólum, Skáksamband Íslands, Kvenfélagið Katla í Reykhólahreppi og fleiri, í samráði við fjölskyldu Birnu heitinnar.

 

Áhugasamir ættu að bóka sig á mótið sem allra fyrst. Hrafn Jökulsson (hrafnjokuls@hotmail.com) og Róbert Lagerman (chesslieon@hotmail.com) taka við skráningum og veita frekari upplýsingar.

 

Til viðbótar má nefna, að skákkonan gamalreynda Indiana Svala Ólafsdóttir á Reykhólum er dóttir Birnu. Jafnframt má til frekari fróðleiks benda á þessar fréttir á Reykhólavefnum sem varða Birnu E. Norðdahl og minningu hennar:

 

Birna E. Norðdahl, skákin og Reykhólar (26. janúar 2012)

 

Róttækar breytingar á umhverfi Barmahlíðar (23. maí 2016)

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31