Mjaltastúlkan sem fórst við Flatey
Elsta skipsflak sem vitað er um við Íslandsstrendur er við Flatey á Breiðafirði, kaupfar sem fórst þar í höfninni á 17. öld. Talið er nokkuð víst að þetta sé Melkmeid (Mjaltastúlkan), vopnað hollenskt kaupfar sem danskur kaupmaður tók á leigu til þess að stunda viðskipti við Íslendinga. Talað er um í annálum að þetta hafi verið 1659. Núna í vor unnu vísindamenn að rannsókn á flakinu og kom þar ýmislegt á daginn. Vinnan næstu mánuðina mun snúast um að vinna úr þeim gögnum og upplýsingum sem aflað hefur verið.
Fyrir nokkru birtist á vefnum mbl.is ítarleg frásögn af rannsókninni, undir fyrirsögninni hér að ofan, ásamt myndunum sem hér fylgja. Frásögnin er birt hér í heild með góðfúslegu leyfi höfundarins, Hjartar J. Guðmundssonar blaðamanns.
________________
Fornleifarannsókn stendur yfir á elsta skipsflaki sem vitað er um við Íslandsstrendur, en flakið fannst upphaflega árið 1992 og fór frumrannsókn á því fram árið eftir undir stjórn dr. Bjarna F. Einarssonar fornleifafræðings. Rannsóknin nú er sú fyrsta sem á sér stað í tæpan aldarfjórðung, en að henni koma fjórir fræðimenn með sérþekkingu á sjávarfornleifafræði og sjávarlíffræði.
Skipið sem um ræðir var kaupfar sem strandaði í höfninni í Flatey á Breiðafirði á 17. öld. Talið er nokkuð víst að skipið hafi heitið Melkmeid, eða Mjaltastúlkan, og verið vopnað hollenskt kaupfar sem danskur kaupmaður að nafni Jonas Trellund tók á leigu til þess að stunda viðskipti við Íslendinga. Talað er um í annálum að strandið hafi átt sér stað árið 1659.
Fram kemur í umfjöllun Bjarna í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1993 að tveir kafarar, þeir Erlendur Guðmundsson og Sævar Árnason, hafi fundið flakið í ágúst árið á undan. Í fyrstu fundu þeir annað flak sem talið hefur verið að kunni að vera af dönsku skonnortunni Charlotte sem sökk í maí 1882. Það er þó ekki víst. Í kjölfarið fundu þeir hollenska skipið.
Mjaltastúlkan var send til Íslands árið 1659 samkvæmt rituðum heimildum. Skipið lá ferðbúið á höfninni í Flatey í september það ár hlaðið meðal annars blautum fiski sem flytja átti til Evrópu. Óveður skall þá á með þeim afleiðingum að skipið hraktist upp í kletta við höfnina og fórst. Einn í áhöfninni lést þegar skipið brotnaði á klettunum en hinir höfðu vetursetu í Flatey.
Ef marka má annála héldu áhafnarmeðlimirnir til Hollands árið eftir. Þeir hafi nýtt veturinn til þess að smíða minna skip til þeirrar ferðar. Þegar til Hollands kom gáfu þeir skýrslu um atburðinn. Bjarni segist þó hafa heyrt munnmæli í Flatey þess efnis að sent hafi verið hollenskt skip eftir áhöfninni og 14 fallbyssum Mjaltastúlkunnar en alls óvíst hvort það sé rétt.
Þegar Mjaltastúlkan sökk lagðist hún á hliðina en hliðin sem sneri upp er að mestu horfin. Talið er að timbrið úr henni hafi verið fjarlægt og nýtt. Hugsanlega af áhöfninni til þess að smíða nýtt skip, hafi það verið gert, eða til húsagerðar enda góður viður verðmætur á þeim tíma. Hin hliðin er að mestu undir ballest skipsins sem var grjót af ýmsu tagi. Talsvert mikið er þó enn eftir af skipinu.
Kevin Martin, doktorsnemi í fornleifafræði við Háskóla Íslands, fer fyrir rannsókninni nú, en hún tengist doktorsrannsókn hans sem fjallar um einokunarverslunina við Ísland á tímabilinu 1602-1787. Með honum starfa hollensku sjávarfornleifafræðingarnir Thijs Coenen og Johan Opdebeeck og Fraser Cameron, sjávarlíffræðingur við Háskóla Íslands. Þegar blaðamaður heyrði í honum var köfun að flakinu í Flateyjarhöfn nýlokið.
Þeir félagar hreinsuðu allt að 80 fermetra svæði þar sem skipsflakið liggur, samanborið við 32 fermetra í rannsókninni 1993. Fyrir 23 árum var notast við ýmsan búnað við hreinsistarfið að sögn Kevins, en í þetta skiptið fór hreinsunin alfarið fram með handafli og tók samtals þrjá daga. Meðal annars hafi þurft að hreinsa sama svæðið aftur af þara og öðrum sjávargróðri.
Kevin, sem búið hefur á Íslandi í rúman áratug, segir að eftir rannsókn á flakinu hafi hann og samstarfsmenn hans breitt sérstakan dúk yfir það sem hleypir vatni í gegnum sig en kemur hins vegar í veg fyrir að sjávargróður setjist á það og valdi skemmdum á því. Þeir hafi þó notið meðal annars aðstoðar björgunarsveitarinnar á Akranesi og velvilja og áhuga Flateyinga.
„Mér hefur þótt þetta áhugavert allt frá því að ég las greinina hans Bjarna. Hann hafði í rauninni aðeins tök á að klóra í yfirborðið og talar um það í greininni að rannsókn hans gæti verið byrjunin á einhverju viðameira,“ segir Kevin. Skortur á fjármagni og áhugaleysi eru nefnd í umfjöllun Bjarna sem ástæður þess að sjávarfornleifafræði hafi nær ekkert verið sinnt hér við land.
Bjarni talar ennfremur um að mikla fjársjóði í formi upplýsinga um sögu landsins sé vafalítið að finna í kringum landið sem náttúran vinni smám saman á. Hann segir í samtali við mbl.is að lítið sé um sérþekkingu og reynslu á þessu sviði hér á landi og finnist mikilvægar fornminjar af þessum toga við landið værum við illa í stakk búin til þess að sinna þeim sem skyldi.
Kevin segist afar hissa á því að ekki skuli hafa verið lögð meiri rækt við sjávarfornleifafræði hér á landi í ljósi þess að Íslendingar eru sjávarútvegsþjóð og saga landsins samofin sjávarútvegi. „Við vitum að slíkar fornleifar hafa varðveist við landið. Margir halda kannski að timbri úr skipum hafi skolað í burtu en við erum hérna til dæmis með yfir 400 ára gamalt skipsflak.“
Með rannsókn sinni hafi þeim félögum tekist að fylla upp í margar eyður í fyrri upplýsingum um Mjaltastúlkuna. Bjarni hafi látið honum í té þær upplýsingar sem hann hafi haft og þar á meðal myndir sem hafi verið þær fyrstu sem teknar hafi verið neðansjávar hér við land. Til standi meðal annars að setja saman þrívíddarmynd af flakinu með nútímatölvutækni.
Hægt sé að teikna upp mjög nákvæma mynd af skipsflakinu með þessari tækni niður í smæstu smáatriði. Verkefnið framundan sé meðal annars að nota þær upplýsingar sem þeir hafi aflað í rannsókninni til þess að skapa mynd af skipinu. Aðspurður segir hann ekki hægt að fullyrða á þessu stigi nákvæmlega hvaða tegund af skipi hafi verið um að ræða.
Tilgangur rannsóknarinnar hafi ennfremur verið að kanna hversu miklar skemmdir hefðu orðið á því frá því árið 1993. Ljóst er að sögn Kevins að náttúruöflin hafi unnið töluvert á flakinu síðan þá.
Ýmsir munir hafa fundist við flakið. Þar á meðal brot úr handmáluðu postulíni. Vonir standi til þess að fjárstyrkir fáist til þess að geta stundað frekari rannsóknir á því.
Vinnan næstu mánuðina mun snúast um að vinna úr þeim gögnum og upplýsingum sem aflað hefur verið og að þeirri úrvinnslu lokinni gera Kevin og félagar ráð fyrir að geta dregið upp mun nákvæmari mynd af skipsflakinu en áður hafi verið fyrir að fara.