Mjög fáir sjötugir og eldri í Kaldrananeshreppi
Verulegur munur er á hlutfallslegum fjölda roskins og aldraðs fólks eftir sveitarfélögum á Vestfjörðum. Jónas Ragnarsson ritstjóri hefur tekið þetta saman. Þannig eru íbúar 70 ára og eldri með lögheimili í Árneshreppi nærri 84% yfir landsmeðaltali (16,7% af íbúafjölda) en í Kaldrananeshreppi eru þeir innan við helmingur af landsmeðaltali (4,5% af íbúafjölda). Í Reykhólahreppi eru þeir tæplega 40% yfir landsmeðaltali (12,7% af íbúafjölda). Þar er hlutfallið tvöfalt hærra í dreifbýli en þéttbýli (Reykhólar) þar sem hlutfallið er lítillega undir landsmeðaltali.
Hlutfallið á landinu er hæst í Tjörneshreppi (23,7% af íbúafjölda) og Helgafellssveit (22,6% af íbúafjölda) en næst á eftir koma Árneshreppur og Skaftárhreppur (16,7% af íbúafjölda).
Tölurnar eru miðaðar við byrjun þessa árs.
Stækkið töfluna á mynd nr. 2 með því að smella á hana.
Jónas Ragnarsson heldur úti síðunni Langlífi.is þar sem stöðugt kemur inn fróðleikur um aldrað fólk á Íslandi.