25. ágúst 2010 |
Mjög fjölbreytt dagskrá á Reykhóladögum 2010
Undanfarin ár hefur Reykhóladagurinn verið árviss viðburður undir lok ágústmánaðar. Að þessu sinni er nafnið á hátíðinni í fleirtölu, Reykhóladagarnir, vegna þess að dagskráin spannar allt frá föstudegi og fram á sunnudag. Byrjað verður síðdegis á föstudag með grillveislu í Hvanngarðabrekku þar sem allir eru velkomnir með sínar rollur á grillið. Að veislunni lokinni munu síðan gáfumanneskjur hreppsins leiða saman hesta sína eða kindur eða annan búfénað. Á laugardag verður stanslaus dagskrá frá morgni og fram á nótt en á sunnudag verður sitthvað við að vera í Mýrartungu, Króksfjarðarnesi og Djúpadal.
Nú þegar má sjá þess stað að fólk er farið að merkja heimili sín og umhverfi þeirra þeim litum sem einkenna munu einstök svæði hreppsfélagsins á Reykhóladögum. Þess má geta að við húsið að Hellisbraut 8b er komin grind að eins konar fuglahræðu uppi við götuna og mætti telja líklegt að hún verði á Reykhóladögum klædd í appelsínugulan fatnað samkvæmt einkennislit neðri hluta þorpsins á Reykhólum.
Dagskrá Reykhóladaganna í heild má finna hér á pdf-formi.
Sjá einnig:
> Nánar varðandi dagskrá Reykhóladaganna
> Litagleði og viðhengi á Reykhóladögum 2010