Mjólkin flýtur úr keröldunum
Viðhorfskönnun sem Mjólkursamsalan hefur gert meðal bænda bendir til að mjólkurframleiðsla gæti aukist um 20 milljónir lítra á næstu árum. Framleiðslan er nú nokkuð umfram það sem þörf er á innanlands. Forstjóri MS telur mikilvægt að halda framleiðslunni í betra jafnvægi við innlenda eftirspurn en nú virðist stefna í.
Þetta kemur fram í úttekt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu í fyrradag undir ofangreindri fyrirsögn. Þar segir einnig:
Um helmingur kúabænda innan MS hyggst auka framleiðslu sína, þegar þeir eru spurðir um framtíðaráform sín, og hlutfallslega fleiri, eða 61% þeirra bænda sem leggja inn í mjólkursamlag Kaupfélags Skagfirðinga, svara á þá lund. Ekki gefa allir upp hvað þeir reikna með að auka mikið en í MjólkurPósti MS er áætlað að framleiðslan gæti aukist um 20-25 milljónir lítra á næstu árum. Þá er áætlað að þeir sem hyggjast draga saman framleiðslu muni minnka framleiðsluna alls um 4 milljónir lítra.
Ari Edwald, forstjóri MS, vekur athygli á því í grein í fréttabréfinu að þegar er munur á milli mjólkurframleiðslu og eftirspurnar á innanlandsmarkaði. Áætlað er að framleiðslan í ár verði um 147 milljón lítrar af mjólk á meðan eftirspurn á fitugrunni er 132 milljón lítrar en á próteingrunni um 122 milljón lítrar. Munurinn á milli framleiðslu og innanlandsmarkaðar eykst væntanlega á næsta ári því flest bendir til að framleiðslan fari yfir 150 milljón lítra. Ef áform um aukningu framleiðslunnar ganga eftir bætast 20 milljón lítrar við.
Yfirfullur Evrópumarkaður
„Ég er fyrst og fremst að vekja athygli á þeirri staðreynd að til lengdar og að jafnaði þarf mjólkurframleiðslan að vera í þokkalegu jafnvægi við innlenda eftirspurn. Framleiðsla umfram það sem ekki tekst að ráðstafa á viðunandi verði mun leiða til tjóns fyrir bændur og mjólkuriðnaðinn,“ segir Ari í samtali við Morgunblaðið. Hann segist ekki taka afstöðu til þess hvernig brugðist verði við þróuninni í smáatriðum, það er að segja hvernig meira samræmi í framleiðslu og sölu verði náð. Að því verkefni vinni aðrir um þessar mundir. „Í mínum huga þarf þetta markmið að nást, hvaða leiðir sem menn fara að því,“ segir Ari.
Í viðræðum bænda og ríkis um búvörusamninga er stefnt að því að leggja niður kvótakerfi í mjólkurframleiðslu á tíu ára samningstíma. Nokkrir bændur hafa lýst yfir áhyggjum yfir því að breytingin leiði til offramleiðslu.
Ari segir að takmarkaðir möguleikar séu á útflutningi mjólkurafurða. Allt fljóti í mjólk á mörkuðum og heimsmarkaðsverðið hafi lækkað um helming á skömmum tíma. Hann segir ekkert í kortunum sem bendi til þess að markaðurinn sé að rétta sig við. Útflutningur á skyri til ESB og Sviss skilar góðu verði en magnið er takmarkað. Það samsvarar aðeins um 3 milljónum lítra af undanrennu, eða 30% af þeirri undanrennu sem gengur af við framleiðslu á fituríkari afurðum fyrir innanlandsmarkað.