Tenglar

23. desember 2016 | Umsjón

Mjólkurframleiðsla má aukast

Mynd: mbl.is/Styrmir Kári.
Mynd: mbl.is/Styrmir Kári.

Kúabændur mega auka mjólkurframleiðslu sína um 5,9% á komandi ári frá því sem var á þessu ári. Framkvæmdanefnd búvörusamninga hefur ákveðið að greiðslumarkið fari upp í 144 milljónir lítra árið 2017 úr 136 milljónum lítra á þessu ári. Þá hækkar framleiðsluskyldan úr 80% af greiðslumarki í 90%, en hún er notuð til að ýta undir eða letja framleiðsluna. Neysluspár gera ráð fyrir aukinni mjólkurvöruneyslu á næsta ári og er hækkunin byggð á þeim.

 

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

 

Arnar Árnason, formaður Landssambands kúabænda (LK), segir þetta mjög jákvæðar fréttir fyrir kúabændur.

 

„Auðvitað eru einhverjir í þeim sporum að vera með fjósin sín full nú þegar og ráða ekki við framleiðsluaukningu. Þá kemur til innlausnarskyldu ríkisins, en ríkið kaupir þá greiðslumarkið sem ekki næst að fylla upp í á fyrirfram ákveðnu verði og selur strax á sama verði til bónda sem óskar eftir því og getur framleitt meira,“ segir Arnar í samtali við blaðið.

 

Greiðslumarkið var 140 milljón lítrar árið 2015, fór niður í 136 árið á eftir og nú upp í 144. Arnar segir slíkar sveiflur geta verið kúabændum erfiðar þar sem framleiðsluferill þeirra er svo langur, draga megi úr framleiðslunni snögglega með því að fella gripi en meira mál sé að bæta við gripum og auka þannig framleiðsluna, það taki tvö ár frá því kvígukálfur fæðist þar til hann er orðinn að mjólkurkú.

 

Arnar segir þessar sveiflur að mestu vera út af neyslunni en nú sé verið að sérsníða sérstakt spámódel til að hægt verði að áætla með nákvæmari hætti um framtíðina. Hann hefur ekki áhyggjur af því að ekki náist að framleiða upp í greiðslumarkið.

 

„Á þessu ári ná kúabændur að framleiða um 151 milljón lítra, en það voru raddir hér uppi fyrir þremur árum sem sögðu að það væri fræðilega vonlaust að framleiða 150 milljón lítra með íslenska kúakyninu. Við sýndum fram á annað og meðalnytin í landinu er enn á mjög hraðri uppleið. Ég hef ekki áhyggjur af að við verðum fyrir mjólkurskorti en við þurfum að nýta alla aðstöðu og alla gripi til að sinna markaðinum, en okkar eina markmið er að sinna innanlandsmarkaðinum vel.“

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31