Tenglar

18. mars 2013 | vefstjori@reykholar.is

Moltugerðarstöð komin á Reykhóla

Moltugerðarhúsið rauða vinstra megin.
Moltugerðarhúsið rauða vinstra megin.
1 af 8

Lítið rautt hús blasir nú við þeim sem koma að hliðinu á sorpsvæðinu neðan við Reykhólaþorp. Hús þetta kom í síðustu viku og hefur að geyma búnað til moltugerðar. Þar inni er rafknúin tölvustýrð tromla þar sem hvers konar matarleifar og annar lífrænn úrgangur verða á fáum vikum að úrvals moltu í garða.

 

Það sem þarna verður unnið setur fólk í poka sem búnir eru til úr maís og leysast upp, enda úr lífrænu efni eins og innihald þeirra á að vera. Fyrsta verk tromlunnar í hverri lotu er síðan að tæta pokana í sundur. Þessa maíspoka á fólk að geta fengið á Reykhólum.

 

Í þessa vinnslu á að fara allt sorp sem lífrænt getur talist, svo sem matarleifar og afskurður af öllu tagi sem til fellur í eldhúsinu, hvort sem það er hrátt eða soðið, reykt eða steikt, kjöt eða fiskur, kjötbein og fiskbein, eggjaskurn, brauðafgangar, ávaxtaleifar, kaffikorgur og kaffifílt, tepokar, eldhúspappír og eggjabakkar - þannig mætti áfram telja.

 

Jón Þór Kjartansson, umsjónarmaður endurvinnslunnar á Reykhólum, segir að tvær til fjórar vikur muni taka fyrir hinn lífræna úrgang að verða að moltu.

 

„Það fer svolítið eftir því hvað sett er í þessa vinnslu. Yfir sumarið er gras úr görðum líka tilvalið. Moltan sem til verður er mjög heppileg í matjurtagarða, í garðinn við húsið, í kringum blómin og kringum trén, sem viðbót við þann jarðveg sem fyrir er. Moltan kemur reyndar ekki í staðinn fyrir mold heldur verður að blanda þessu saman.“

 

Jón veit ekki til þess að moltugerð með þessum hætti sé algeng hjá sveitarfélögum hérlendis. „Anton Helgason heilbrigðisfulltrúi Vestfjarða segir að við hér á Reykhólum séum að gera góða hluti.“

 

Gámaþjónusta Vesturlands er eitt af undirfyrirtækjum Gámaþjónustunnar hf. sem er með dótturfyrirtæki um allt land. Þar fengust þær upplýsingar að lítið sé um að sveitarfélög annist moltugerð. „Það er þó til, en það eru ekki mörg sveitarfélög sem hirða lífrænan úrgang til moltugerðar í stað þess að eyða stórfé í akstur með úrganginn.“

 

Alla daga (og nætur) er hægt að setja bæði heimilissorp og flokkað sorp í gáma fyrir utan hliðið á sorpsvæðinu. Móttakan fyrir allt annað er opin þrisvar í viku, sjá hér. Þá er Jón á svæðinu og veitir allar nánari upplýsingar.

 

Til vinstri á fyrstu myndinni má sjá húsið innan við hliðið á sorpsvæðinu rétt þegar búið var að planta því niður. Hægra megin stendur Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri og virðir það fyrir sér. Á bak við hana alveg yst til hægri er hólfaði gámurinn með lúgum fyrir flokkað sorp.

 

Síðan kemur röð mynda af því þegar húsið var sett niður á sinn stað en á þeirri síðustu eru Jón Þór Kjartansson og Eðvarð Þór Sveinsson bílstjóri hjá Gámaþjónustu Vesturlands sem flutti húsið vestur. Í stóra hvíta pokanum innan við dyrnar er viðarsag til að íblöndunar við moltugerðina.

 

Athugasemdir

María Játvarðardóttir, mnudagur 18 mars kl: 21:36

Þetta finnast mér góðar fréttir og til hamingju með þetta Reykhólabúar. Ég hef búið til mína eigin mold síðastliðin 22 ár i garðinum. Lauslega reiknað hef ég sparað Kópavogsbæ förgun á um ellefu tonnum af sorpi.

Björg Karlsdóttir, mnudagur 18 mars kl: 21:55

Þetta eru frábærar fréttir.

Einar Örn Thorlacius fyrrv.sveitarstjóri Reykhólahrepps, rijudagur 19 mars kl: 08:38

Gaman að íbúar Reykhólahrepps skuli verið komnir í fremstu röð í þessum efnum.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Mars 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31