Moses Hightower með stofutónleika á Nýp
Sálarkvartettinn alíslenski Moses Hightower heldur „stofutónleika“ á menningarsetrinu Nýp á Skarðsströnd á fimmtudagskvöld kl. 20.30. Kvartettinn sló óvænt í gegn á síðasta ári með frumburði sínum, Búum til börn, og hefur hlotið afar lofsamlega dóma í helstu fjölmiðlum. Þeir dómar haldast í hendur við plötusölu, aðsókn að tónleikum og spilun í útvarpi og sýna að sveitin hefur snarlega skipað sér í framvarðasveit íslenskrar tónlistar.
Tónlist sveitarinnar er öll frumsamin og textarnir einnig, en þeim hefur m.a. verið líkt við textagerð Spilverks þjóðanna. Lagasmíðunum er erfiðara að finna hliðstæðu fyrir hér á landi. Augljóst er þó að þar er ausið duglega úr brunni sálartónlistar sjöunda og áttunda áratugarins, þar sem andar Bill Withers, Sly & The Family Stone og Curtis Mayfield svífa yfir vötnum.
Hljómsveitina Moses Hightower skipa þeir Andri Ólafsson sem syngur og spilar á bassa, Daníel Friðrik Böðvarsson gítarleikari, Magnús Trygvason Eliassen sem spilar á slagverk og Steingrímur Karl Teague sem syngur og spilar á hljómborð. Aðgangseyrir að tónleikunum á Nýp er kr. 1.500.
Lauslega áætlað eru um 12-15 kílómetrar frá vegamótum í Saurbænum út að Nýp.
Nokkrar fréttir hér á vefnum varðandi menningarstarfið á Nýp á Skarðsströnd:
21.07.2011 Fjallað um ævintýri við Breiðafjörð
30.07.2010 Séra Matthíasar minnst með málþingi
08.08.2008 Einhver áhugaverðasta myndlistaruppákoma sumarsins