Mótmæla áformum um Reykjavíkurflugvöll
Aðalfundur samtakanna Landsbyggðin lifi, sem haldinn var á Egilsstöðum um síðustu helgi, samþykkti ályktun þar sem því er mótmælt kröftuglega að Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýrinni verði lagður niður. Greinargerð með ályktuninni er á þessa leið:
Verði innanlandsflug flutt til Keflavíkur mun samanlögð ferðaleið með þeim ferðamáta milli landsbyggðar og höfuðborgar lengjast um 85 kílómetra að meðaltali eða um 170 kílómetra samtals ef farið er fram og til baka.
Það er tvöfalt meiri lenging en ef Hvalfjarðargöngum yrði lokað og augljóst að áform um að gera innanlandsflug brottrækt frá höfuðborginni yrði stærsta spor afturábak í samgöngumálum landsins sem mögulegt er að stíga.
Aðalfundurinn átelur það ábyrgðarleysi að rætt sé um að færa Reykjavíkurflugvöll því að hvorki liggur fyrir svæði fyrir nothæfan flugvöll né fjármagn til þess að byggja hann. Því jafngildir slíkt tal því að fara með innanlandsflugið til Keflavíkur.
Nothæfur innanlandsflugvöllur í landi höfuðborgarinnar er jafn sjálfsagður og nauðsynlegur og höfn og samgönguæðar á landi.
Forsenda hagsældar og velfarnaðar bæði höfuðborgarinnar og landsins alls er að samgöngur séu eins greiðar og öruggar og unnt er.
Sjúkraflug og annað flug þar sem hraði og öryggi eru forsendur eru lífsnauðsyn fyrir landsbyggðina. Því andmæla samtökin Landsbyggðin lifi hugmyndum um að stíga risaskref aftur á bak með því að leggja Reykjavíkurflugvöll niður.
- Birt hér samkvæmt beiðni frá samtökunum Landsbyggðin lifi.
► Vefur samtakanna Landsbyggðin lifi