Myndagátan: Lausn og vinningshafi
Myndagátan sem birt var hér á vefnum fyrir nokkrum dögum er tengd héraðinu eins og þar kom fram. Lausnin er ein af kunnustu lausavísum Jóns Thoroddsens sýslumanns og skálds, sem fæddist og ólst upp á Reykhólum og nefndur hefur verið faðir íslensku skáldsögunnar á síðari tímum.
Sautján lausnir bárust og allar réttar, naumur meirihluti þeirra frá fólki utan Reykhólahrepps, allt frá Sauðárkróki og suður í Kópavog.
Dregið hefur verið úr nöfnum innsendenda. Konfektkassann frá Hólabúð á Reykhólum hlýtur Guðný Elínborgardóttir á Patreksfirði og verður honum komið til hennar.
Vísan (lausnin) er á þessa leið (greinarmerkjasetning í lausnunum skiptir auðvitað engu máli):
Brekkufríð er Barmahlíð,
blómum víða sprottin.
Fræðir lýði fyrr og síð:
Fallega smíðar Drottinn.