Tenglar

28. nóvember 2013 | vefstjori@reykholar.is

Myndir frá brunaæfingu á Reykhólum

Slökkvilið Reykhólahrepps undir forystu Guðmundar Ólafssonar slökkviliðsstjóra á Grund hélt í fyrradag æfingu á Dvalarheimilinu Barmahlíð og með starfsfólki heimilisins. Suðurálman í Barmahlíð var formyrkvuð til að líkja eftir svartareyk og fóru slökkviliðsmenn væddir reykköfunarbúnaði inn á herbergi til að bjarga fólki út. Í hlutverkum fólks sem æft var að sækja inn á herbergi voru unglingar á svæðinu og voru þeir fluttir í hjálparmiðstöð í skólanum (þaðan sem þeir voru nýkomnir).

 

Síðan komu slökkviliðsmenn og starfsfólk Barmahlíðar saman í setustofunni þar sem Guðmundur fór yfir málin. Eftir það var farið á sorpsvæðið neðan við Reykhóla þar sem starfsfólkið fékk leiðbeiningar um meðhöndlun slökkvitækja og æfði sig að slökkva eld sem kveiktur var í olíu í járnkeraldi. Jafnharðan og einhver var búinn að slökkva kveikti Sveinn Ragnarsson slökkviliðsmaður á Svarfhóli í keraldinu á nýjan leik. Reyndar var ekki auðhlaupið að þekkja slökkviliðsmennina í sundur þar sem þeir voru með hjálma og grímur, nema hvað Guðmundur slökkviliðsstjóri var auðþekktur í skærgulum búningi en hinir svartklæddir. Þegar þarna var komið sögu hjá eldkeraldinu var farið að skyggja og veður nokkuð hráslagalegt í rigningunni.

 

Hér fylgja nokkrar myndir sem teknar voru við þetta tækifæri, bæði í og við Barmahlíð og við slökkviæfinguna niðri á sorpsvæði, auk mynda sem teknar voru við slökkvistöðina beint á móti ruslasvæðinu. Myndir nr. 1-3 eru nokkuð villandi því að blossinn frá myndavélinni lýsir upp kolmyrkvuð húsakynnin. Til samanburðar er mynd nr. 16 sem tekin var án þess að nota flassið.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Mars 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31