Myndir frá vísitasíu og messu á Skálmarnesmúla
Ljósmyndirnar sem hér fylgja tók Óskar Steingrímsson. Við athöfnina söng fimm kvenna kór, en hann skipuðu (talið frá vinstri á mynd nr. 3) Ása Stefánsdóttir í Árbæ, Sólrún Sverrisdóttir á Reykhólum, Þuríður Stefánsdóttir á Reykhólum, Sigfríður Magnúsdóttir á Stað og Helga Sigurðardóttir á Kjarlaksvöllum í Saurbæ. Á harmoniku, sem reyndar er náskyld orgeli, lék Haraldur Guðni Bragason í Sælingsdalstungu, organisti í Reykhólaprestakalli.
Skálmarnesið er þríhyrnt og einungis tengt meginlandinu með svolitlu eiði, þannig að minnstu munar að það sé eyja. Það gengur fram milli Skálmarfjarðar og Kerlingarfjarðar en hið innra eru Vattarfjörður og Mjóifjörður (sjá kortin á myndum nr. 8 og 9 - smellið á til að stækka). Lítið undirlendi er á Skálmarnesi og raunar er nesið að mestu eitt fjall, Skálmarnesmúlafjall. Akvegur liggur út nesið að vestanverðu. Skálmarnesmúli er fremst á nesinu en á vesturhorni þríhyrningsins er bærinn Kerlingarfjörður, sem í daglegu tali var nefndur Fjörður, rétt eins og bærinn Skálmarnesmúli var kallaður Múli. Af honum dregur Múlasveitin heiti sitt. Frá Vestfjarðavegi út að Múla er um fimmtán kílómetra akstur.
Kerlingarfjörður (Fjörður) og Skálmarnesmúli (Múli) fóru í eyði árið 1975 og þá var jafnframt Múlasókn öll komin í auðn. Hins vegar er íbúðarhúsum á þessum bæjum líkt og miklu víðar í héraðinu vel við haldið og þau notuð sem sumardvalarstaðir. Á mynd nr. 7 er húsið í Firði.
Kirkjan sem nú stendur á Skálmarnesmúla er hlaðin úr holsteini og var vígð árið 1960. Bygging hennar hafði tekið hátt í áratug enda var þá ekki kominn bílvegur út Múlanesið. Byggingarefnið var því flutt þangað á bátum og síðan á klakk og kerru heim á staðinn, eftir því sem fram kemur í ritverki sr. Ágústs Sigurðssonar frá Möðruvöllum um kirkjustaði á Vestfjörðum (Í manns munni, Barðastrandarsýsla).