Nám af öllu tagi hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða
Námsvísir Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða fyrir skólaárið 2012-2013 markar upphaf að fjórtánda starfsári hennar. Þar eru tilgreind um 80 námskeið og námsleiðir, nokkru meira en á undanförnum árum. Fræðslumiðstöðin hefur starfsstöðvar á Ísafirði, Patreksfirði og Hólmavík en námskeiðahald hefur einnig verið á smærri stöðum. Hér verður getið þess helsta sem í boði er hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða í vetur.
- Í tungumálum er boðið upp á ensku, frönsku, ítölsku og þýsku, auk íslensku fyrir útlendinga.
- Í tölvum er bæði boðið upp á lengri námskeið í grunnatriðum, sem og stutt hnitmiðuð námskeið fyrir fólk sem vinnur við tölvur og þarf að skerpa kunnáttuna í einstaka forritum. Kallast þessi námskeið Gull í mund og verða á morgnana.
- Í flokki tómstunda eru margvísleg námskeið, svo sem fataviðgerðir, ísgerð, málmsuða og fyrirlestraraðir um tónlist og menningarlega fjölbreytni.
- Í endurmenntun eru námskeið svo sem skyndihjálp, bókhald og hugræn atferlismeðferð.
- Í réttindanámi eru í boði skipstjórnarnám, vélgæsla og meirapróf (aukin ökuréttindi).
- Í lengra námi verður Fræðslumiðstöðin með ýmsar námskrár frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, sem einnig eru kallað vottað nám, því heimilt er að meta það til eininga í framhaldsskólum.
- Þá verða í vetur allmörg námskeið með styrk frá Fjölmennt – fullorðinsfræðslu fatlaðra.
Auk þess að standa fyrir ýmsum námskeiðum og lengra námi tekur Fræðslumiðstöð Vestfjarða þátt í nokkrum þróunarverkefnum. Má þar nefna 210 kennslustunda nám fyrir starfsfólk í leikskólum, 660 kennslustunda nám til undirbúnings háskólanámi og þátttöku miðstöðvarinnar í FabLab-verkefninu með Menntaskólanum á Ísafirði og fleiri aðilum.
Fræðslumiðstöð Vestfjarða hefur kappkostað að þjóna atvinnulífi og einstaklingum á Vestfjörðum. Má í því sambandi nefna að miðstöðin hefur hannað nám fyrir erlenda frístundafiskimenn og prófað þá í skipstjórnarfræðum þannig að þeir hefðu heimild til að fara með báta hjá bátaleigunum, sem reka þess starfsemi. Var settur upp sérstakur vefur til að koma efninu til skila og er slóðin á hann www.plato.is/.
Fræðslumiðstöð Vestfjarða rekur mannaðar starfsstöðvar á Hólmavík, Ísafirði og Patreksfirði. Þar er hægt að fá frekari upplýsingar um námsframboð hjá miðstöðinni, en einnig er hægt að fá viðtöl við náms- og starfsráðgjafa miðstöðvarinnar. Er fólk hvatt til að nýta sé þá þjónustu. Hægt er að hringja, senda tölvupóst eða bara koma við hjá Fræðslumiðstöðinni og spjalla um möguleikana í rólegheitum.
- Hólmavík, sími 451 0080, netfang holmavik@frmst.is
- Ísafjörður, sími 456 5025, netfang frmst@frmst.is
- Patreksfjörður, sími 490 5095, netfang patro@frmst.is