Námskeið: Viðhald og endurbætur gamalla húsa
Námskeið ætlað húsasmiðum og öðrum sem áhuga hafa á viðhaldi gamalla mannvirkja verður haldið á Patreksfirði í lok þessarar viku eða föstudagskvöldið 5. desember og laugardaginn 6. desember. Á námskeiðinu verður fjallað um undirstöður og burðarvirki eldri timburhúsa og farið yfir frágang bæði utanhúss og innan. Skoðuð verða gömul hús sem hefur verið gert við og hús sem þarfnast viðgerða. Einnig verður farið yfir undirbúning viðgerða og sögu og þróun húsbygginga á Íslandi. Tilgangur námskeiðsins er m.a. að efla þekkingu í heimahéraði á endurbótum gamalla húsa.
Lögð er áhersla á að gert sé við gömul hús með sömu aðferðum og frágangi og þegar þau voru byggð. Þátttakendur fá góða yfirsýn um það hvernig gömul hús voru byggð og dýrmæta þekkingu sem nýtist til viðgerða og endurbóta gamalla húsa, segir í tilkynningu.
Að námskeiðinu stendur Fræðslumiðstöð Vestfjarða í samstarfi við Húsafriðunarnefnd og Verkalýðsfélag Vestfirðinga. Kennarar eru Magnús Skúlason arkitekt, Jón Norsteien arkitekt og Einar Skúli Hjartarson húsasmíðameistari. Kennt verður í Skor, þekkingarsetri á Patreksfirði. Kennslutími er föstudaginn 5. desember kl. 17-20 og laugardaginn 6. desember kl. 8-15.
Þátttökugjald er kr. 40 þúsund. Fyrir þá sem rétt eiga á endurgreiðslu úr Endurmenntunarsjóði greiðir stéttarfélag 75% námskeiðsgjaldsins. Hver og einn verður að kanna sína réttarstöðu.
Nánari upplýsingar í síma 490 5095 eða í netfanginu maria@frmst.is.
Skráningarform er að finna hér.
Myndin sem hér fylgir er af Litlabæ í Skötufirði við Ísafjarðardjúp og fengin af vef Byggðasafns Vestfjarða. Húsið var byggt árið 1895 og var búið þar fram til 1969. Þjóðminjasafn Íslands hefur nú látið endurbyggja Litlabæ.