25. október 2010 |
Námskeiðaröð um smáframleiðslu matvæla
Námskeiðaröð í samstarfi Impru á Nýsköpunarmiðstöð, Atvest, Vinnumálastofnunar og Vinnumarkaðsráðs um tækifæri og möguleika í smáframleiðslu matvæla á Vestfjörðum verður haldin í október og nóvember. Að sögn Ásgerðar Þorleifsdóttur verkefnastjóra hjá Atvest stóð til að hafa námskeiðið Krásir á vegum Impru og halda haustfund Veislu að vestan, sem er klasasamstarf um vestfirskan mat, auk þess sem Vinnumálastofnun og Vinnumarkaðsráð hafði áhuga á að bjóða upp á úrræði fyrir atvinnulausa tengt smárekstri og matarmenningu og efla matvælaframleiðslu og þróun tengdri matargerð á svæðinu. Var því ákveðið að samnýta krafta allra þessara aðila og vinna að sameiginlegum markmiðum, sem eru að auka þekkingu og styrkja matvælaiðnað og ferðaþjónustu á svæðinu.
Markmið námskeiðsins er að kynna fyrir þátttakendum möguleika í smáframleiðslu, kveikja áhuga og neista þátttakenda með fjölbreyttri fræðslu og veita þeim sem eru komnir af stað með hugmyndavinnu, hafa gert tilraunir með framleiðslu eða eru að framleiða en vilja breyta eða bæta vöru sína, kostur á nokkurs konar „stefnumóti“ við hóp sérfræðinga þar sem ítarlega er farið yfir vöru eða vöruhugmyndina og framleiðandinn fær sérhæfða ráðgjöf og endurgjöf um vöruna sjálfa, umbúðirnar eða markaðsmál.
Allir þeir sem áhuga hafa á matvælaframleiðslu eru hvattir til að nýta sér þetta einstaka tækifæri og er allar nánari upplýsingar að finna á vef Atvest eða hjá Ásgerði í síma 450 3053.