(Nánast) allt um Reykhóladaga 2016
Byggðarhátíðin Reykhóladagar er að þessu sinni 21.-24. júlí eða frá fimmtudegi og fram á sunnudag eins og undanfarin ár. Dagskráin er mjög fjölbreytt fyrir unga jafnt sem eldri. Hún er birt hér fyrir neðan, með fyrirvara um hugsanlegar viðbætur eða breytingar, sem þá verða jafnóðum settar hér inn. Fylgist með! Auk þess er hér neðst birtur matseðillinn í grillveislunni miklu, þar sem Skúli Gautason verður veislustjóri. Athugið að panta þarf í matinn í síðasta lagi á mánudag, 18. júlí.
Ekki verða veitt verðlaun fyrir best skreytta húsið þetta árið. Þó er fólk hvatt til að skreyta gleðinnar vegna og njóta þess í faðmi fjölskyldu og vina að gera fínt í hverfinu sínu.
Umsjónarmaður Reykhóladaga 2016 er Jóhanna Ösp Einarsdóttir tómstundafulltrúi (johanna@reykholaskoli.is).
Endilega deilið þessu sem víðast!
Upplýsingar um gistimöguleika og annað fást á Upplýsingamiðstöð ferðafólks á Reykhólum, sími 434 7830, netfang info@reykholar.is.
Fimmtudagur 21. júlí
kl. 13 Bátabíó á Báta- og hlunnindasýningunni.
kl. 15 Bátabíó á Báta- og hlunnindasýningunni.
kl. 18 Bátasprell í Bjarkalundi. Nánari upplýsingar og myndir hér.
kl. 20.30 Brenna í Bjarkalundi.
kl. 22 Bjartmar Guðlaugsson trúbbar í Bjarkalundi. Verð 1.500 kr. Nánar hér - Mamma beyglar alltaf munninn.
Föstudagur 22. júlí
kl. 10 Teymt undir börnum við Báta- og hlunnindasýninguna. Koma með reiðhjólahjálma!
kl. 11-12.30 Boðið heim í súpu. Mexíkó-kjúklingasúpa í Ási á Reykhólum, kjötsúpa á Litlu-Grund og bátasúpa á Báta- og hlunnindasýningunni.
kl. 13-14.30 Sundlaugarfjör í Grettislaug. Frítt inn.
kl. 15-16.30 Hverfakeppni í Hvanngarðabrekku, allir geta tekið þátt.
kl. 17 Þarabolti fyrir framan Álftaland á Reykhólum.
kl. 19.30 Pöbbkviss á Báta- og hlunnindasýningunni. 1.000 kr. inn fyrir 18 ára og eldri, 500 kr. fyrir 13-17 ára og frítt fyrir yngri í fylgd með fullorðnum. Hægt er að kaupa miða á bæði kvissið og Þórunni og Halla seinna um kvöldið á kr. 3.000.
kl. 21 Fótboltagolf á túninu við Báta- og hlunnindasýninguna.
kl. 22 Dúóið Þórunn og Halli frá Ísafirði á Báta- og hlunnindasýningunni. 2.500 kr. inn, 18 ára aldurstakmark. Hægt er að kaupa miða sem gildir líka á pöbbkvissið fyrr um kvöldið á kr. 3.000. Sjá nánar hér.
Laugardagur 23. júlí
Frítt er inn á Báta- og hlunnindasýninguna á Reykhólum um helgina. Hins vegar verður þar söfnunarbaukur sem gestir geta stungið einhverju í, ef þeir vilja styrkja sýninguna.
kl. 09 Reykhóladagahlaupið, 15 km frá Bjarkalundi að Reykhólum. Þátttökugjald 1.500 kr. Bolur, medalía og drykkur innifalið. Frítt í sund að hlaupi loknu.
kl. 09.20 Reykhóladagahlaupið, 8 km frá skógræktinni í Barmahlíð að Reykhólum. Þátttökugjald 1.500 kr. Bolur, medalía og drykkur innifalið. Frítt í sund að hlaupi loknu.
kl. 9.40 Reykhóladagahlaupið, 5 km frá Hrafnanesi að Reykhólum. Þátttökugjald 1.500 kr. Bolur, medalía og drykkur innifalið. Frítt í sund að hlaupi loknu.
kl. 10 Reykhóladagahlaupið, 2,5 km frá Miðhúsabrekkunni (sem sumir kalla Gestsbrekkuna) að Reykhólum. Þátttökugjald 1.500 kr. Bolur, medalía og drykkur innifalið. Frítt í sund að hlaupi loknu.
Athugið: Ef fólk vill vera snemma í því verður hægt að kaupa boli fyrir Reykhóladagahlaupið á tónleikum Bjartmars í Bjarkalundi á fimmtudagskvöld og á pöbbkvissinu á Báta- og hlunnindasýningunni á föstudagskvöld. Ekki þarf að skrá sig í hlaupið, bara mæta, en gott getur verið að vera búinn að koma að máta og kaupa bol á undan til að flýta fyrir á laugardagsmorgninum. Nánar hér (myndir af bolunum og medalíunum).
kl. 13-15 Dráttarvélarall á túninu við Báta- og hlunnindasýninguna (hoppukastalar á svæðinu).
kl. 12-16 Kaffihlaðborð á Báta- og hlunnindasýningunni. Verð 1.800 kr. fyrir 14 ára og eldri, frítt fyrir yngri í fylgd með fullorðnum. Matseðillinn er fjölbreyttur: Bátasúpa, rúgbrauðið góða með reyktum rauðmaga og rúllupylsu, nokkrar tegundir af kökum og heimabakað brauð með salati og með súpunni. Jói í Skáleyjum verður einhvern hluta þess tíma inni á sýningunni að ríða net.
kl. 15-18 Karnival í Hvanngarðabrekku (hoppukastalar, gasblöðrur og andlitsmálning).
kl. 15-18 Skottsala í Hvanngarðabrekku (fólk getur selt hitt og þetta úr skottinu á bílnum).
kl. 17 Uppboð á Seljanesi, allur ágóði rennur til styrktar langveikum börnum.
kl. 18.30 Grillað í Hvanngarðabrekku, veislan utandyra. Veislustjórn og brekkusöngur í umsjón Skúla Gautasonar. Sjá matseðilinn hér neðst og upplýsingar um verð og pantanir.
kl. 21.30 Barnaball með Sniglabandinu í íþróttahúsinu. Verð 1.000 kr.
kl. 21-23.30 Happy Hour á Báta- og hlunnindasýningunni.
kl. 23 Stórdansleikur með Sniglabandinu í íþróttahúsinu. 18 ára aldurstakmark. Aðgangseyrir 3.000 kr.
Sunnudagur 24. júlí
kl. 13 Léttmessa í Reykhólakirkju.
kl. 15 Kassabílarall, rabarbarakökukeppni (verðlaun), vöffluhlaðborð og lifandi tónlist í Króksfjarðarnesi. Verð 1.000 kr. á vöffluhlaðborðið, 500 kr. fyrir 14 ára og yngri. Nánari upplýsingar hér.
___________________________
Um grillveisluna í Hvanngarðabrekku (laugardag kl. 18.30)
Verðið á matinn er 3.000 krónur í forsölu fyrir 12 ára og eldri, 1.500 kr. fyrir 5-11 ára og frítt fyrir þau yngstu. Sé greitt á staðnum er verðið 3.500 kr.
Panta þarf í matinn í síðasta lagi mánudaginn 18. júlí. Hægt er að panta í netfanginu johanna@reykholaskoli.is og símum 434 7860 og 698 2559. Mikilvægt er að taka fram hversu margir fullorðnir eru og hversu mörg börn, en ekki bara nefna heildarfjölda. Hægt verður að borga og fá í hendur pantaða miða á tónleikum Bjartmars í Bjarkalundi á fimmtudagskvöld og á pöbbkvissinu á Báta- og hlunnindasýningunni á föstudagskvöld.
Matseðill
- Eldgrillað lambainnralæri (það besta úr lærinu)
- Eldgrillaðar piri piri kjúklingabringur
- Bakaðar kartöflur með smjöri og hunangsrelishsósu
- Grillað grænmeti
- Salat grillmeistarans. Allt það ferskasta með ostum og ferskum ávöxtum
- Smjörsteikt korn
- Koníakslöguð rjómapiparsósa
María Maack, mivikudagur 13 jl kl: 16:57
Heyrðu engin alvöru spurningakeppni sem sagt.. jahá, þá þarf að leggja metnað í pöbbkvissið því þar verður sko barist.
;-}