Tenglar

9. júlí 2020 | Sveinn Ragnarsson

Náttúrubarnahátíð á Ströndum 2020

Náttúrubarnaskólinn - leikir
Náttúrubarnaskólinn - leikir
1 af 2

Fjölskylduhátíðin Náttúrubarnahátíð á Ströndum verður haldin laugardaginn 11. júlí nú í sumar. Þetta er í fjórða skipti sem hátíðin er haldin en þetta sumarið verður hún með örlítið óhefðbundnu sniði og fer til dæmis fram á einum degi en ekki þrem líkt og áður. Á hátíðinni fá allir gestir, bæði börn og fullorðnir, kjörið tækifæri til að finna eða rækta sitt innra náttúrubarn á fjölbreyttum viðburðum sem flétta saman skemmtun og fróðleik.

Það er Náttúrubarnaskólinn sem stendur fyrir hátíðinni en hann hefur verið starfræktur síðan sumarið 2015. Náttúrubarnaskólinn stendur fyrir fjölbreyttum námskeiðum yfir sumartímann og miðar að því að fræða börn á öllum aldri um ólíkar hliðar náttúrunnar á námskeiðum sem snúast um útivist og náttúruskoðun þar sem þau læra í gegnum leik.

Náttúrubarnaskólinn er starfræktur innan vébanda Sauðfjársetursins í Sævangi rétt sunnan við Hólmavík, og þar verður hátíðin haldin. Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur hefur séð um skipulagningu hátíðarinnar. „Þetta gengur ljómandi vel og við erum æsispennt, eins og alltaf,“ segir Dagrún Ósk.

Hátíðin hefst með náttúrujóga og endar á trölla- og draugasögum um kvöldið. „Við reynum alltaf að hafa fjölbreytta dagskrá sem miðast að því að fræðast um náttúruna og hafa gaman. Þetta er hátíð sem fer að mestu fram utandyra.“ bætir Dagrún við.  

Dagskrána má sjá hér:

11:00 Náttúrujóga með Hvatastöðinni

12:00 Rölt eftir stígnum Sjávarslóð og framkvæmdur Veðurgaldur

12:00 Hægt að kaupa súpur og samlokur í Sævangi

12:30 Magnað atriði frá Sirkus Íslands

13:00 Spennandi útismiðja með Jóni Víðis

14:30 Náttúruhljóðsmiðja, hljóðum úr náttúrunni safnað og notuð í tónverk með aðstoð tækninnar, Auður Viðarsdóttir er listrænn stjórnandi smiðjunnar

16:00 Gönguferð í teistuvarpið, kíkt á teistuunga sem búa í kössum í fjörunni

17:00 Strandahestar, bogfimi, opið hús í tilraunastofunni, plastdýragarðinum og fleira

17:00 Hægt að kaupa grillaðar pylsur í Sævangi

19:00 Töfrasýning með Jóni Víðis

20:00 Stuðboltinn Raggi Torfa stjórnar fjörusöng

21:30 Trölla- og draugasögur í Sagnahúsinu


Það er frítt á öll atriði hátíðarinnar en hún er styrkt af Uppbyggingasjóði Vestfjarða. „Ég hvet náttúrubörn á öllum aldri til að koma og leika sér með okkur og skapa skemmtilegar minningar. “ segir Dagrún að lokum en hægt er að kynna sér hátíðina á Facebook síðu Náttúrubarnaskólans, á natturubarnaskoli@gmail.com eða hjá Dagrúnu í síma 661-2213.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2023 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31