Tenglar

21. júní 2012 |

Nei, traktorinn í Nesi er ekki til sölu

Þetta hefur farið vel af stað, segir Sóley Vilhjálmsdóttir, formaður Handverksfélagsins Össu. Þríþættur markaður félagsins var á laugardag opnaður á nýjan leik fyrir sumarið í Kaupfélagshúsinu gamla og góða í Króksfjarðarnesi, en þar er um að ræða handverksmarkað, nytjamarkað og bókamarkað. Mun fleiri eru nú með sitthvað til sölu en var í fyrra og úrvalið er fjölbreyttara. Bæði hefur fjölgað verulega í félaginu en líka má nefna að þar eru nú til sölu ýmsar af útgáfubókum Jóns Guðmundssonar í Bæ í Króksfirði í Reykhólasveit, sem lengi rak þar bókaútgáfu en er núna búsettur á Siglufirði. Á markaðinum í Nesi má auk þess nefna hillur með ýmsum söluvörum fyrir Reykhólahrepp.

 

Búið er að koma upp rampi fyrir hjólastóla við útidyrnar.

 

Undir húsvegg í Nesi stendur bráðfallegur dísiltraktor af gerðinni Deutz árg. 1955, skrúðgrænn á lit alveg eins og Reykhólahreppur. Hann er ekki til sölu. Eigendur vélarinnar eru Arnór Grímsson frá Tindum í Geiradal (Arnór í Nesi) og Unnsteinn Ólafsson á Grund (Hjalli á Grund), sem eru meðal merkustu safnenda og uppgerðarmanna gamalla traktora á fyrri tíð hérlendis ásamt Gumma á Grund, bróður Hjalla.

 

Kaffi og meðlæti stendur gestum á markaði (mörkuðum) Össu í Nesi til boða. Jafnframt er næsta víst að hægt sé að krækja sér í spjall um allt og ekkert við hina og þessa meðan veitinga er notið. Markaðurinn er opinn alla daga kl. 13-18.

 

Myndirnar sem hér fylgja tók Magga á Gróustöðum (Signý M. Jónsdóttir). Miklu fleiri er að finna undir Ljósmyndir > Myndasyrpur í valmyndinni vinstra megin.

 

Sjá einnig:

 02.01.2012 Assa útdeilir ágóðanum

 04.06.2011 Handverkssalan á síðasta ári hálf önnur milljón

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30