25. nóvember 2011 |
Nemendaverndarráð stofnað í Reykhólaskóla
Í samræmi við lög um grunnskóla hefur nemendaverndarráði verið komið á fót í Reykhólaskóla. Þetta kom fram á fundi mennta- og menningarmálanefndar Reykhólahrepps í gær. Í ráðinu eiga sæti skólastjóri, sérkennari, skólahjúkrunarfræðingur og félagsmálastjóri. Hlutverk þess er að gæta hagsmuna barna í skólanum og vinna að ýmsum málum sem snerta þau. Kennarar vísa málum til ráðsins og hafa tilkynningaskyldu gagnvart því ef þeir hafa grun um að nemendur séu vanræktir á einhvern hátt. Nemendaverndarráð heldur fundi mánaðarlega eða oftar eftir þörfum.
Minnt skal á, að fundargerðir hreppsnefndar og annarra nefnda Reykhólahrepps er að finna á pdf-formi í dálkinum Fundargerðir neðst til vinstri hér á síðunni.