Netkönnunin: Viðbrögðin einstaklega góð
„Viðbrögðin eru langt fram úr væntingum“, segir Viktoría Rán Ólafsdóttir, verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, aðspurð um svörun í netkönnuninni (atvinnulífskönnuninni) sem kynnt var hér á vefnum fyrir skömmu. Í morgun höfðu liðlega sextíu svör borist. Þar af voru tæplega þrír fjórðu (73%) með búsetu í póstnúmeri 380 (Reykhólahreppi), en eins og tekið hefur verið fram er líka óskað eftir svörum frá brottfluttum. Könnun þessi tekur til Reykhólahrepps og sveitarfélaganna á Ströndum.
Könnunin verður opin enn um sinn. Til að minna á hana verður áfram hér fyrir ofan efstu frétt borði sem birtist handahófskennt til skiptis við aðra auglýsingaborða. Ef smellt er á hann er farið beint inn á könnunina. Þar er yfirskriftin Atvinnulífskönnun fyrir íbúa á Ströndum og í Reykhólahreppi, en þess verður að geta, að ekki er búið að kynna hana í sveitarfélögunum þremur á Ströndum.
Aðspurð um efni svaranna sem borist hafa segir Viktoría, að varasamt sé að gefa upplýsingar um slíkt meðan könnunin er ennþá opin. Það geti haft áhrif á skoðanir þeirra sem eiga eftir að svara. Hins vegar verði greindur nokkur samhljómur í svörum varðandi það hver áhersluverkefnin ættu að vera og hvers konar atvinnustarfsemi skuli laða að.
Íbúar í Reykhólahreppi, sem og brottfluttir, skulu á ný eindregið hvattir til þátttöku í þessari einföldu netkönnun. Smellið hér.
Á myndinni sem hér fylgir er Viktoría Rán á íbúafundinum á Reykhólum 10. mars.
Sjá einnig nánar:
► Atvinnulífskönnun - brottfluttir svari líka