Netsamband í sveitum: Strandavefurinn lagður niður?
„Eins og menn vita eru höfuðstöðvar fréttavefjarins strandir.is á bænum Kirkjubóli við Steingrímsfjörð og vefurinn hefur verið rekinn þaðan þrátt fyrir hægt og hnökrótt samband síðan 2004, auk þess sem ekki hefur verið kostur á öðru en að greiða sérstaklega fyrir niðurhal. Ef engar breytingar á nettengingu bæjarins eru sjáanlegar í nánustu framtíð verður vefurinn lagður niður í haust", segir á fréttavefnum strandir.is.
Þar segir enn fremur: „Nú líður að opnun tilboða í að háhraðatengja staði í dreifbýlinu þar sem slík uppbygging fer ekki fram á markaðsforsendum, en Fjarskiptasjóður frestaði eins og kunnugt er í sumar opnun tilboða til 4. september. Breytingar hafa verið gerðar nú í lok ágúst á listanum um þá staði sem á að tengja með háhraðaneti og á Ströndum hafa bæirnir Bakki í Kaldrananeshreppi, Kolbeinsá 1 og 2 í Bæjarhreppi og Bræðrabrekka, Kirkjuból, Smáhamrar 2 og Stakkanes í Strandabyggð verið felldir út af listanum og eru sagðir á þjónustusvæði markaðsaðila. Ekki er ljóst á þessari stundu hvað þetta þýðir nákvæmlega."
Hér má bæta því við, að á sama hátt og nefndir sveitabæir í Strandasýslu hafa bæirnir Gillastaðir, Kambur, Mýrartunga 2 og Seljanes í Reykhólahreppi verið felldir út af listanum.
Viðbót: Eftirfarandi málsgrein hefur nú verið bætt inn í fréttina á vefnum strandir.is: „Vera kann að átt sé við Kirkjuból í Langadal í sama hreppi í lista Fjarskiptasjóðs þar sem greint er frá þessari breytingu.“
Sjá einnig:
12.07.2008 Enn verður bið á háhraðatengingum í dreifbýli