Nokkrir fróðleiksmolar um vindorkuver
EM Orka er nýtt fyrirtæki á Íslandi og stofnað til að virkja vindorku. Eigendur eru Vestas, sem er danskt fyrirtæki og stærsti vindmylluframleiðandi í heiminum sem á 50%, og Emerging Markets Power, sem er írskt fyrirtæki, það vinnur að þróun vindorkugarða og á einnig 50%. Starfsmenn og stjórnendur EM Orku eru 6. Á Írlandi eru 5 og 1 á Íslandi, Ríkharður Örn Ragnarsson.
Eins og áður hefur komið fram var almennur kynningarfundur í Króksfjarðarnesi, 24. okt. þar sem þeir Diarmuid Twomey framkvæmdastjóri og Ríkharður Örn Ragnarsson sögðu frá fyrirhuguðum vindmyllugarði á Garpsdalsfjalli.
Það sem mælir með virkjun vinds er að það er umhverfisvænn kostur og afturkræfur, öll mannvirki sem þarf að reisa eða grafa er hægt að fjarlægja og ganga frá þannig að ummerki verða lítil.
Það er hagkvæmt að virkja vindinn, stofnkostnaður lítill miðað við aðra kosti.
Það er hægt að byggja vindorkuver tiltölulega hratt þegar undirbúningsvinnu er lokið, og tækni við smíði á vindmyllum er alltaf að fleygja fram.
Þessi virkjun er fyrsta verkefni EM Orku á Íslandi. Eftir nokkrar athuganir varð þessi staður fyri valinu vegna margra kosta. Þeir helstu eru nálægð við tengivirki í Geiradal, en reiknað er með að tengjast aðveitustöðinni þar með 6 km. jarðstreng. Vindskilyrði eru góð, sterkur vindur og stöðug vindátt skv. upplýsingum frá nærliggjandi veðurstöðvum. Hafnar eru veðurmælingar sem standa munu í 2 ár.
Svæðið er það langt frá byggð að hljóðmengun mun ekki valda ónæði og landslagið þannig að vindmyllurnar sjást ekki úr nágrenninu. Hins vegar munu þær sjást lengra að, og meðfylgjandi eru myndir þar sem þær eru settar inn í raunstærð miðað við umhverfið.
Vindmyllurnar verða 35 talsins og möstrin verða 91,5m. Upp á enda á spaða uþb. 150m. háar. Framleiðslugeta verður 126 MW, eða meira en tvöfalt fyrirhugað afl Hvalárvirkjunar.
Staða verkefnisins, það sem lokið er og áætlanir eru á þessa leið; (áætlaður rekstur 25 ár)
Hagkvæmnismat jan. 2018
Samið við landeigendur júlí 2018
Íbúasamráð 2018 - 2047
Veðurmælingar sept. 2018 - 2020
Umhverfismat sept. 2018 - 2020
Byggingarleyfi sept. 2021
Tenging við raforkukerfið 2021
Byggingartími nóv. 2021 - 2022
Rekstur 2022 - 2047
Reiknað er með að á byggingartíma vindorkugarðsins verði alls um 200 störf. Innlendir verktakar munu sjá um jarðvinnu og smíði sökkla, vegagerð og flutninga, en sérhæfðir starfsmenn Vestas munu sjá um uppsetningu sjálfra vindmyllanna.
Þegar uppsetningu er lokið og rekstur hafinn, eru 25 störf við stjórnun, rekstur og viðhald. Þar af verða 20 störf í nærumhverfi, þar sem reiknað er með að starfsmenn búi innan 40 km. radíus frá vindmyllunum.
Það er áformað að stofna samfélagssjóð fyrir íbúa Reykhólahrepps, og greiða í hann 15 milljónir kr. á ári.
Hægt verður að sækja um framlög úr sjóðnum til verkefna í Reykhólahreppi tengd heilsueflingu, menntun, innviðauppbyggingu og nýsköpun.
Undir lok kynningarfundarins var fundargestum boðið að bera upp spurningar og koma með athugasemdir. Margar málefnalegar spurningar komu, t.d. um veðurþol vindmyllanna og hvaða lágmarks vindstyrk þær þyrftu og hver væri hagstæðastur. Í svörunum kom fram að unnt væri að klæðskerasauma vindmyllurnar að nokkru leyti að hverjum stað. Þær geta byrjað að framleiða við 3 m/s, vindur frá 7 - 14 m/s er hagstæður, en þær eru yfirleitt ekki látnar framleiða ef vindur fer yfir 25 m/s. Spurt var um afhendingaröryggi og verðlagningu rafmagnsins, en undirbúningur er ekki það langt komin að svör liggi fyrir.
Aðstandendur þessa verkefnis vilja vera í góðu sambandi við íbúa á svæðinu, og einmitt nú þegar vinna við umhverfismat er hafin eru allar ábendingar vel þegnar og upplýsingar sem kunnugir búa yfir.
Fundurinn í Nesheimum er bara sá fyrsti, reiknað er með að miðla upplýsingum um framgang verksins jafnóðum og hverjum áfanga er náð.
Á einni myndinni sem fylgir er dreginn hringur með vindmyllugarðinn í miðju. Radíus hringsins er 30 km. Bláu flekkirnir á myndinni eru þeir staðir þar sem vindmyllurnar koma til með að sjást að miklu eða öllu leyti. Gulu flekkirnir eru þar sem sést í þær en lítið.
Einnig eru myndir frá nokkrum stöðum, Reykhólar eru í 22 km fjarlægð og útsýnið rétt ofan við Dvalarheimilið Barmahlíð gæti verið svona í góðu skyggni.