Tenglar

22. júní 2008 |

Nokkuð gott dúnár

Bræðurnir Börkur og Hörður Grímssynir halda út í hólma. Ljósm. Sigurgeir.
Bræðurnir Börkur og Hörður Grímssynir halda út í hólma. Ljósm. Sigurgeir.

„Við byrjum á því að þurrka dúninn hérna heima og aðeins reyna að hrista úr honum. Svo fer hann í hreinsun hérna í sveitinni þar sem er hreinsað úr honum ruslið og fjaðrirnar. Svo er hann fluttur út", segir Hörður Grímsson, bóndi á Tindum í Króksfirði í Reykhólahreppi, en þar stóð heimilisfólk í dúntekju þessa vikuna. Tindar eru fyrst og fremst kúabú, en nytjarnar á skerjum og hólmum í landi bæjarins, þar sem eru rúmlega 300 æðarkolluhreiður, reynast ágætis aukabúgrein. Um 60 kollur þarf til að ná upp í eitt kíló af hreinsuðum dún og eru þetta því um 5-6 kíló sem safnast á Tindum, en að sögn Harðar ná sumir nágrannabæjanna upp undir 10 kílóum.

 

Hörður segir að útkoman sé nokkuð góð í ár, en hún getur verið breytileg eftir árum. „Ef það kemst mikill vargur í þetta getur það skemmt mikið og eins spilar veðrið mikið inn í, ef það eru miklar rigningar þá verður dúnninn verri." Sumarið hefur hins vegar verið gott fram að þessu og virðist ætla að gefa af sér góðan dún. Sjálfur segist Hörður þó betur settur en sumir aðrir, því tófunni virðist fara fjölgandi og stafar æðarvarpinu í landi ógn af henni, en varpið á Tindum er úti í hólma og því varið fyrir tófunni.

 

Talsvert er um nytjar af æðarvarpi í Reykhólasveit og segir Hörður að fleiri en einn flytji dúninn út. Hann segist ekki viss um hvernig hann endi, mögulega í einhverri góðri sæng, en hann hafi líka heyrt um að dúnninn sé notaður í flugmannabúninga.

 

– Morgunblaðið 22.06.2008 / unas@mbl.is

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30