Tenglar

25. janúar 2013 |

Nokkur æviatriði Ebenezers Jenssonar á Reykhólum

Ebenezer Jensson.
Ebenezer Jensson.

Ebenezer Jensson, sem andaðist á heimili sínu á Reykhólum aðfaranótt hins 14. janúar, 65 ára að aldri, var í dag jarðsunginn og borinn til grafar á Reykhólum. Hann fæddist 26. ágúst 1947 á fæðingarstað og æskuheimili móður sinnar, Tungu í Valþjófsdal í Önundarfirði. Foreldrar hans voru Jóhanna Ebenesersdóttir og Jens Guðmundsson, sem upprunninn var hér í Reykhólasveit. Þau gengu í hjónaband sumarið eftir að Ebenezer fæddist og áttu heima á Reykhólum alla sína búskapartíð eða um hálfrar aldar skeið. Jóhanna lést árið 1997 og Jens árið eftir.

 

Bræður Ebenezers fáum árum yngri eru Eiríkur Jensson, líffræðingur og framhaldsskólakennari, kvæntur Ástu Þórarinsdóttur, og Helgi Jensson, lífefnafræðingur, kvæntur Helgu Guðnadóttur.

 

Ebenezer kvæntist árið 1970 Þóru Steindórsdóttur. Þau skildu. Sonur þeirra er Kristján Þór, fæddur 1975. Eiginkona Kristjáns er Rebekka Eiríksdóttir og eiga þau tvær dætur, Védísi Fríðu, fædda 2002, og Anítu Hönnu, fædda 2005. Þau Kristján og Rebekka búa á Stað á Reykjanesi í Reykhólasveit í félagi við tengdaforeldra hans.

 

Ebenezer lauk landsprófi frá Reykjaskóla í Hrútafirði, stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri og síðan íþróttakennaraprófi frá Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni. Eftir það var hann kennari við Héraðsskólann í Reykjanesi, Reykjaskóla í Hrútafirði, Gagnfræðaskólann í Keflavík og svo við Reykjaskóla á ný. Hann fluttist aftur heim á Reykhóla árið 1976 og kenndi um árabil við Reykhólaskóla. Snemma á níunda áratugnum byggði hann sér hús að Hellisbraut 20 á Reykhólum og átti þar heima upp frá því.

 

Síðasta hluta starfsævinnar vann Ebenezer í Þörungaverksmiðjunni á Reykhólum. Heilsan var tekin að bila og hann lét af störfum árið 2009. Síðustu árin var hann daglegur gestur í kaffihorninu í Hólakaupum á Reykhólum, leit í blöð og spjallaði við vini og kunningja sem þar komu.

 

 

Hér fyrir neðan eru tilfærðir kaflar úr tveimur af þeim minningargreinum um Ebenezer heitinn, sem birtar eru í Morgunblaðinu í dag.

 

 

Gunnar Frímannsson skrifar fyrir hönd bekkjarsystkina Ebenezers á Reykjum í Hrútafirði og segir m.a.:

  • Ebbi var með okkur flestum í 2. og 3. bekk á Reykjaskóla veturna 1962-64. Hann féll vel inn í hópinn okkar enda félagslyndur og gamansamur. Sum okkar voru honum síðan samferða í Menntaskólann á Akureyri þaðan sem samheldinn hópur Reykskælinga lauk stúdentsprófi vorið 1968.
  • Ebbi var ágætlega liðtækur íþróttamaður á yngri árum, strax á Reykjaskóla var hann sundmaður góður og körfuboltamaður. Á Akureyri stunduðu RSK-drengirnir íþróttirnar vel og líklega var enginn nemandi Menntaskólans oftar en Ebbi í gamla íþróttahúsinu á þessum tíma. Þar var hann kappsamur, áhugasamur og alltaf í góðu skapi þannig að gaman var að æfa með Ebba. Ekki fór hjá því að eljan við íþróttirnar bitnaði stundum á náminu en Ebbi var þó góður námsmaður þegar hann vildi það við hafa og fór klakklaust gegnum alla skóla.
  • Með RSK-stúlkunum stundaði Ebbi einkum rökræður og danslist og þær kunnu vel að meta færni hans og frammistöðu í þessum greinum. Ósjaldan sveiflaði hann þeim út á gólfið strax í fyrstu syrpunni á skólaböllunum og fáir voru úthaldsbetri í tvisti og tjútti. Hann var raungóður og eftirsóttur félagi. Nú þegar við rifjum upp kynni okkar af Ebba söknum við öll þessara samverustunda með honum á Reykjaskóla og í Menntaskólanum á Akureyri.

 

Ásta Þórarinsdóttir, mágkona Ebenezers heitins, segir m.a. í grein sinni í Morgunblaðinu:

  • Það voru ýmsar sterkar hliðar í fari Ebba sem voru meira áberandi þegar hann var yngri. Hann var bókhneigður og hafði yndi af alls konar bókmenntum og fróðleik. Svo var hann óskaplega laginn við að höndla alls konar vélar og ökutæki og viðgerðir virtust oft leika í höndunum á honum. Alla tíð var hann reiðubúinn með sína hjálparhönd við þá aðstoð sem hann gat veitt. Þessa nutu allir í kringum hann og ég man svo vel hve liðlegur hann var við föðursystkini þeirra bræðra á Skáldstöðum meðan þau lifðu.
  • Síðustu árin nutu bræður hans og við Helga eiginkonur þeirra aðstoðar hans og góðmennsku við að kíkja eftir sumarbústað okkar í Berufirði og húsinu á Skáldstöðum, hita upp húsið fyrir okkur hjónin, veiða mýs áður en gert var múshelt, og ýmis viðvik ef þurfa þótti. Þá kom hann okkur oft á óvart með því að skilja eftir ostaköku, reyktan rauðmaga eða annað í ísskápnum þegar hann vissi að okkar var að vænta vestur. Við kölluðum hann stundum „fjarstýringuna“ þegar við þurftum á upphitun að halda fyrir komu okkar í Berufjörð.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31