Tenglar

3. mars 2012 |

Nokkur æviatriði Hallgríms á Skálanesi

Hallgrímur V. Jónsson, venjulega kallaður Halli á Skálanesi.
Hallgrímur V. Jónsson, venjulega kallaður Halli á Skálanesi.

Hallgrímur V. Jónsson, bóndi á Skálanesi í Gufudalssveit, sem andaðist 23. febrúar, tæplega hálfníræður að aldri, var jarðsunginn á Reykhólum í dag. Katrín eiginkona hans lifir mann sinn. Afkomendur þeirra eru fjölmargir. Um ævina gegndi Hallgrímur ýmsum trúnaðarstörfum sem honum voru falin á hendur. Hann sinnti þeim af kostgæfni en sóttist ekki eftir áhrifum eða vegtyllum.

 

Hallgrímur Valgeir Jónsson (Halli) fæddist á Skálanesi 4. maí 1927. Foreldrar hans voru Jón Einar Jónsson (1900-1997), bóndi á Skálanesi, ættaður úr Gufudalssveit, og Ingibjörg Jónsdóttir (1902-1989), ættuð af Barðaströnd og úr Arnarfirði. Hallgrímur var næstelstur tíu systkina en að auki átti hann tvo uppeldisbræður.

 

Hallgrímur kvæntist árið 1961 Ragnheiði Katrínu Ólafsdóttur frá Króki í Selárdal í Arnarfirði, f. 1939, húsmóður og síðar afgreiðslukonu í útibúi Kaupfélags Króksfjarðar á Skálanesi.

 

Börn Hallgríms og Katrínar:

  • Ólafur Arnar, sjómaður, f. 1961, kvæntur Sigrúnu H. Arngrímsdóttur.
  • Sveinn Berg, búfræðingur, f. 1962, kvæntur Andreu Björnsdóttur.
  • Elías Már, framreiðslumaður, f. 1965, kvæntur Örnu Völu Róbertsdóttur.
  • Guðrún Þuríður, f. 1969, gift Oddi H. Magnússyni.
  • Ingibjörg Jóna, tanntæknir, f. 1972, gift Helga Ingvarssyni.

Hallgrímur ólst upp á Skálanesi við hefðbundin sveitastörf. Skólaganga hans var stutt, einungis nokkrir mánuðir í barnaskóla um 12 ára aldurinn.

 

Á yngri árum var Hallgrímur á sjó, meðal annars frá Akranesi. Fyrir 1960 vann hann á jarðýtu í Reykhólasveit. Veturinn 1959-60 var hann landpóstur á snjóbíl hjá Einari á Seftjörn á Barðaströnd, sótti póstinn mánaðarlega á Patreksfjörð, fór með hann um Barðastönd, Múlasveit og Gufudalssveit og í Króksfjarðarnes og fór sömu leið til baka.

 

Fyrsta búskaparár sitt bjuggu Halli og Kata á Patreksfirði, þar sem hann stundaði sjómennsku og fleiri störf, meðal annars hjá Vegagerð ríkisins. Árið 1961 fluttu þau að Skálanesi og hófu þar sauðfjárbúskap, sem hann stundaði til dauðadags.

 

Á sínum tíma átti Hallgrímur sæti í hreppsnefnd Gufudalshrepps. Um skeið var hann hreppstjóri. Hann var í stjórn Kaupfélags Króksfjarðar og sat í sóknarnefnd Gufudalssóknar í fjölmörg ár. Hann var í stjórn Búnaðarfélags Gufudalssveitar, forðagæslumaður og fleira. Um árabil hafði hann umsjón með sauðfjárveikivarnargirðingunni á Klettshálsi. Síðustu árin hóf hann skógrækt í Skálaneslandi í samvinnu við Skjólskóga á Vestfjörðum.

 

Þegar Halli og Kata fóru að búa á Skálanesi byrjaði hann að auka ræktunina og bæta húsakost á jörðinni. Þau fluttu í nýtt íbúðarhús árið 1965. Á árunum 1975-1981 byggði hann fjárhús fyrir 440 fjár ásamt hlöðum.

 

Halli hafði mesta unun af því að brjóta land og rækta. Síðar kom það fram í garðrækt og skógrækt á efri árum.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30