Tenglar

4. apríl 2011 |

Nokkur æviatriði Munda í Gröf

Guðmundur Sveinsson.
Guðmundur Sveinsson.
Guðmundur Sveinsson, Mundi í Gröf, andaðist á Dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum 24. mars 2011, níræður að aldri. Hann var jarðsunginn í Reykhólakirkju á laugardag og jarðsettur í kirkjugarðinum á Reykhólum, þar sem hann hvílir í félagsskap margra systkina sinna. Hann var síðastur í þeim stóra hópi að kveðja þennan heim. Systkinin voru tólf og þar af komust tíu til fullorðinsára og náðu góðum aldri.

 

Guðmundur fæddist 11. ágúst 1920 á Hofsstöðum í Þorskafirði í Reykhólasveit. Faðir hans var Sveinn Sæmundsson úr Dölum og móðir hans Sesselja Oddmundsdóttir úr Bolungarvík. Fimmtán ára missti Guðmundur móður sína. Eftir það fór hann fljótlega í vinnu á ýmsum stöðum í sveitinni, á Stað á Reykjanesi, á Reykhólum og víðar. Einnig var hann einn vetur í Múla í Ísafirði í Inn-Djúpi. Hann vann líka í vegavinnu á Þorskafjarðarheiði, í Gilsfirði og víðar en var þó viðloða heima á Hofsstöðum.

 

Árið 1942 kom Halldóra Guðjónsdóttir sem ráðskona að Hofsstöðum ásamt börnum sínum tveimur til Ragnars bróður Guðmundar, sem þá var tekinn við búi á Hofsstöðum. Næsta ár á eftir var hún ráðskona á Skerðingsstöðum í Reykhólasveit hjá Halldóri Kristjánssyni frænda sínum. Um það leyti fara þau Guðmundur að draga sig saman og opinberuðu trúlofun sína í nóvember 1943.

 

Á þessum árum lá jarðnæði ekki á lausu og þess vegna þurftu þau að búa í tvíbýli fyrstu árin. Vorið 1944 fara þau að Miðjanesi og bjuggu á móti Játvarði Jökli Júlíussyni og Rósu Hjörleifsdóttur næstu fjögur ár. Árið 1948 fluttu þau að Borg og bjuggu í tvíbýli við Guðrúnu systur Munda, en Brynjólfur Jónsson maður hennar veiktist af berklum og fór að Vífilsstöðum um ári eftir að þau komu þangað. Í Borg bjuggu þau í fjögur ár og annaðist Guðmundur þá bæði búin að miklu leyti þegar þörf krafði þangað til Brynjólfur kom aftur heim árið 1952.

 

Þá um vorið fluttu þau að Gröf í Þorskafirði, sem þau keyptu seinna. Þar var aðkoman fremur nöturleg - engin útihús, íbúðarhús án kyndingar og margt annað sem þurfti að færa til betri vegar. Engin sléttuð tún voru í Gröf og fyrstu árin var heyjað með gamla laginu, en smátt og smátt ræktaði Guðmundur upp ágæt véltæk tún. Með tímanum var byggt upp, fyrst fjárhús og hlaða, síðan var nýtt íbúðarhús byggt 1972 og seinast fjós.

 

Þrátt fyrir allt basl og strit bundu þau Guðmundur og Halldóra ríka tryggð við Gröf. Þar er mikil náttúrufegurð og bætti upp fyrir marga erfiðleikana. Mundi var unnandi náttúrunnar og hugaði mjög að bæði gróðri og fuglum. Hann naut þess að ganga um landið sitt og kunni að meta það að verðleikum.

 

Mundi var alla tíð mikill lestrarhestur. Hann las allt fram til síðustu mánaða þó að efnið festist ekki lengur í minni. Hann hafði gott auga fyrir hinu spaugilega í tilverunni.

 

Þau Dóra brugðu búi árið 1989. Eftir það bjuggu þau hjá Hönnu dóttur sinni og Gylfa Helgasyni manni hennar og fjölskyldu á Reykhólum á vetrum en lengi voru þau í Gröf á sumrin meðan heilsan entist. Síðustu árin bjuggu þau á Dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum.

 

Þegar Guðmundur og Halldóra kynntust átti hún tvö börn fyrir, Guðrúnu Kolbrúnu Pálsdóttur (f. 1939) og Gísla Sævar Guðmundsson (f. 1941). Mundi leit alltaf á þau sem sín eigin börn. Saman eignuðust þau Mundi og Dóra tvær dætur, þær Ósk Jóhönnu (f. 1946), sem jafnan hefur notað Jóhönnunafnið og verið kölluð Hanna, og Arndísi Ögn (f. 1954). Barnabörnin eru níu og langafabörnin eru orðin tíu.

 

Athugasemdir

Sigurður Snævar Gunnarsson, sunnudagur 14 gst kl: 12:40

Mér þótti mjög leitt að fylgja ekki Munda móðurbróður mínum, en einhvernveginn fór andlát hans og jarðarför framhjá mér og finnst mér fréttaþyrstum gaur þetta alveg með ólíkyndum.
Blessuð sé minning þessa öðlings.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30