Nokkur æviatriði Sigvalda á Hafrafelli
Sigvaldi Guðmundsson, bóndi á Hafrafelli í Reykhólasveit, andaðist á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum á þriðjudag,12. maí, 86 ára að aldri. Hann var jarðsunginn á Reykhólum í dag og jarðsettur þar, og fór útförin fram í kyrrþey að hans eigin ósk. Kona Sigvalda í nærfellt tvo aldarþriðjunga, Alma Dóróthea Friðriksdóttir, lifir mann sinn. Núna eru afkomendur þeirra orðnir liðlega fjörutíu.
Sigvaldi fæddist á Krossi á Skarðsströnd 19. mars 1929, sonur hjónanna Guðrúnar Guðmundsdóttur (1893-1978) og Guðmundar Erlendssonar (1881-1973). Fjölskyldan fluttist að Reykhólum árið eftir fæðingu Sigvalda, út í Akureyjar fluttu þau árið 1932 og síðan að Skógum í Þorskafirði árið 1933. Árið 1935 keyptu svo foreldrar hans jörðina Hafrafell og þar átti Sigvaldi heima upp frá því.
Alma og Sigvaldi kynntust árið 1949 þegar hann var tvítugur en hún (Alma Dorothea Erna Weidermann) ekki orðin tvítug. Þau voru saman alla tíð síðan og allt til hinsta dags Sigvalda, eða í 66 ár, þó svo að þau hafi ekki gengið formlega í hjónaband fyrr en árið 1970. Þau komu til dvalar í Barmahlíð á Reykhólum snemma árs 2006 þó að vissulega hafi þau alltaf átt heima á Hafrafelli.
Sigvaldi var þúsundþjalasmiður, hafði áhuga á hvers konar véltækni í smáu og stóru og eðlisgáfur í þeim efnum, og sinnti alls konar viðgerðum jafnframt hefðbundnum bústörfum. Allt lék í höndunum á honum, hvort heldur það voru viðgerðir á traktorum eða öðrum landbúnaðartækjum eða þá vasaúrum og armbandsúrum og nánast öllu þar á milli. Hann sá um viðgerðir á frystitækjum og annaðist líka símaviðgerðir í meira en tuttugu ár. Í mörg ár var hann með dekkjaverkstæði á Hafrafelli. Aðeins einu sinni baðst hann undan því að gera við hlut, svo vitað sé: Það var gervigómur sem hafði dottið í gólfið og brotnað. Hann tæki slíkt ekki að sér.
Öllum stundum þegar tími gafst frá bústörfunum var Sigvaldi í viðgerðarherberginu sínu á Hafrafelli, sem var hans einkaheimur. Þar voru varahlutir og útvarpstæki og hitt og annað upp um alla veggi, og þaðan út fór ekkert nema í lagi. Ef ekki fengust varahlutir, þá bjó hann þá bara til úr öðrum hlutum eða tækjum.
Myndir nr. 2 og 3 sem hér fylgja voru teknar árið 1949, þegar Sigvaldi var tvítugur, árið þegar þau Alma kynntust. Þær bera vissulega merki þess að vera sjötíu ára gamlar. Á annarri þeirra er hann að koma af tófuveiðum, sem hann stundaði löngum, og hefur það starf gengið áfram til beggja sona hans. Sigvaldi stundaði líka rjúpnaveiðar og í sláturhúsinu í Króksfjarðarnesi var hann skotmaður í liðlega aldarfjórðung.
Sigvaldi og Alma eignuðust sex börn. Þau eru:
- Olga (f. 1951)
- Dóróthea Guðrún (f. 1952)
- Haflína Breiðfjörð (f. 1956)
- Marta (f. 1957)
- Guðmundur Helmuth (f. 1960)
- Trausti Valgeir (f. 1967)
Barnabörnin eru þrettán og barnabarnabörnin orðin tuttugu og tvö.
Þrymur Sveinsson, laugardagur 16 ma kl: 23:46
Þegar ég tók einn vetur í Iðnskólanum kom einn kennari minn til mín og spurði mig hvort ég þekkti Sigvalda á Hafrafelli. Sævar kennari minn hafði verið á ferð um Vestfirði sumrinu áður og lent í vandræðum við Bjarkalund með hleðslu vandamál. Honum var vísað til Sigvalda sem athugaði málið og gerði það sem hann gat. Hann hlóð rafgeyminn góða stund og sagði svo um leið og hann rétti honum hleðslutæki að hann yrði að hlaða geyminn í Borgarnesi og keyra helst með ökuljósin slökkt. Þannig kæmist hann til Reykjavíkur. Sævar sagðist hafa verið steinhissa á þessari greiðvikni Sigvalda við bláókunnugan manninn og lítið vildi hann taka fyrir greiðann, eyddi því samtali en bað hann að senda sér hleðslutækið til baka með næstu ferð. Auðvitað gerði ég það sagði Sævar brosandi og ég sendi nú dálítið með sem ég vissi að myndi gleðja hann. Þannig var Sigvalda lýst og greiðvikni hans og hjálpsemi var ósvikin þegar þurfti að temja óþægt útvarp eða ræða við dyntótt sjónvarpstæki og margt annað sem var betra en nýtt eftir að hann hafði farið höndum um og snurfusað.