Tenglar

16. maí 2015 |

Nokkur æviatriði Sigvalda á Hafrafelli

Alma og Sigvaldi á Hafrafelli.
Alma og Sigvaldi á Hafrafelli.
1 af 4

Sigvaldi Guðmundsson, bóndi á Hafrafelli í Reykhólasveit, andaðist á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum á þriðjudag,12. maí, 86 ára að aldri. Hann var jarðsunginn á Reykhólum í dag og jarðsettur þar, og fór útförin fram í kyrrþey að hans eigin ósk. Kona Sigvalda í nærfellt tvo aldarþriðjunga, Alma Dóróthea Friðriksdóttir, lifir mann sinn. Núna eru afkomendur þeirra orðnir liðlega fjörutíu.

 

Sigvaldi fæddist á Krossi á Skarðsströnd 19. mars 1929, sonur hjónanna Guðrúnar Guðmundsdóttur (1893-1978) og Guðmundar Erlendssonar (1881-1973). Fjölskyldan fluttist að Reykhólum árið eftir fæðingu Sigvalda, út í Akureyjar fluttu þau árið 1932 og síðan að Skógum í Þorskafirði árið 1933. Árið 1935 keyptu svo foreldrar hans jörðina Hafrafell og þar átti Sigvaldi heima upp frá því.

 

Alma og Sigvaldi kynntust árið 1949 þegar hann var tvítugur en hún (Alma Dorothea Erna Weidermann) ekki orðin tvítug. Þau voru saman alla tíð síðan og allt til hinsta dags Sigvalda, eða í 66 ár, þó svo að þau hafi ekki gengið formlega í hjónaband fyrr en árið 1970. Þau komu til dvalar í Barmahlíð á Reykhólum snemma árs 2006 þó að vissulega hafi þau alltaf átt heima á Hafrafelli.

 

Sigvaldi var þúsundþjalasmiður, hafði áhuga á hvers konar véltækni í smáu og stóru og eðlisgáfur í þeim efnum, og sinnti alls konar viðgerðum jafnframt hefðbundnum bústörfum. Allt lék í höndunum á honum, hvort heldur það voru viðgerðir á traktorum eða öðrum landbúnaðartækjum eða þá vasaúrum og armbandsúrum og nánast öllu þar á milli. Hann sá um viðgerðir á frystitækjum og annaðist líka símaviðgerðir í meira en tuttugu ár. Í mörg ár var hann með dekkjaverkstæði á Hafrafelli. Aðeins einu sinni baðst hann undan því að gera við hlut, svo vitað sé: Það var gervigómur sem hafði dottið í gólfið og brotnað. Hann tæki slíkt ekki að sér.

 

Öllum stundum þegar tími gafst frá bústörfunum var Sigvaldi í viðgerðarherberginu sínu á Hafrafelli, sem var hans einkaheimur. Þar voru varahlutir og útvarpstæki og hitt og annað upp um alla veggi, og þaðan út fór ekkert nema í lagi. Ef ekki fengust varahlutir, þá bjó hann þá bara til úr öðrum hlutum eða tækjum.

 

Myndir nr. 2 og 3 sem hér fylgja voru teknar árið 1949, þegar Sigvaldi var tvítugur, árið þegar þau Alma kynntust. Þær bera vissulega merki þess að vera sjötíu ára gamlar. Á annarri þeirra er hann að koma af tófuveiðum, sem hann stundaði löngum, og hefur það starf gengið áfram til beggja sona hans. Sigvaldi stundaði líka rjúpnaveiðar og í sláturhúsinu í Króksfjarðarnesi var hann skotmaður í liðlega aldarfjórðung.

 

Sigvaldi og Alma eignuðust sex börn. Þau eru:

  • Olga (f. 1951)
  • Dóróthea Guðrún (f. 1952)
  • Haflína Breiðfjörð (f. 1956)
  • Marta (f. 1957)
  • Guðmundur Helmuth (f. 1960)
  • Trausti Valgeir (f. 1967)

Barnabörnin eru þrettán og barnabarnabörnin orðin tuttugu og tvö.

 

Athugasemdir

Þrymur Sveinsson, laugardagur 16 ma kl: 23:46

Þegar ég tók einn vetur í Iðnskólanum kom einn kennari minn til mín og spurði mig hvort ég þekkti Sigvalda á Hafrafelli. Sævar kennari minn hafði verið á ferð um Vestfirði sumrinu áður og lent í vandræðum við Bjarkalund með hleðslu vandamál. Honum var vísað til Sigvalda sem athugaði málið og gerði það sem hann gat. Hann hlóð rafgeyminn góða stund og sagði svo um leið og hann rétti honum hleðslutæki að hann yrði að hlaða geyminn í Borgarnesi og keyra helst með ökuljósin slökkt. Þannig kæmist hann til Reykjavíkur. Sævar sagðist hafa verið steinhissa á þessari greiðvikni Sigvalda við bláókunnugan manninn og lítið vildi hann taka fyrir greiðann, eyddi því samtali en bað hann að senda sér hleðslutækið til baka með næstu ferð. Auðvitað gerði ég það sagði Sævar brosandi og ég sendi nú dálítið með sem ég vissi að myndi gleðja hann. Þannig var Sigvalda lýst og greiðvikni hans og hjálpsemi var ósvikin þegar þurfti að temja óþægt útvarp eða ræða við dyntótt sjónvarpstæki og margt annað sem var betra en nýtt eftir að hann hafði farið höndum um og snurfusað.

Sævar Tjörvason, mnudagur 31 oktber kl: 23:19

Bóndinn á Hafrafelli,Reykhólasveit, jólasaga frá 1986
Í októberlok 2016 benti sundlaugarfélagi minn, Máni Sigurjónsson, mér á frásögn sem höfð var eftir mér í endursögn fyrrum nemanda míns, Þryms Sveinssonar.
Að ég festi hana á blað var eflaust vegna þess að ég var þá á bólakafi í félagsheimspeki en í henni er m.a. fjallað um forsendur mannlegs samfélags, hvað manneskjan sé, hvort hún sé sjálfelsk, full manngæsku, sé óskrifað blað eða hvort blaðið sé skrifað í samfelldum samskiptum við umhverfið. Segja má að allar kenningar um samfélagið alveg frá upphafi trúarbragða og heimspeki byggi á þessum forsendum. Fyrir mig varð þetta atvik með bóndanum á Hafrafelli ágætis dæmi um manngæskuna.
Þetta var um hásumar. Ég og fjölskylda mín vorum að koma frá Lundi, Svíþjóð, 7.júlí 1986. Tveimur dögum síðar fengum lánaðan VW-golf og lögðum af stað vestur á firði. Var ekið um botn Hvalfjarðar og beygt til hægri við Vatnaskógs-afleggjarann við Ferstiklu enda stóð til að gista í Reykholti.
Farið var upp langa brekku eftir aflöngum háls, þakinn kjarri og lyngi áður en komið var að sumarbúðum KFUM. Á leiðinni hrökk farangursgeymslan úr lás. Drap ég á bílnum og lokaði geymslunni. Ætlaði síðan að ræsa bílinn aftur en hann tók ekki við sér. Nú var ég aukvisi í bílum en reyndi að rifja upp eðlis- og efna¬fræðina sem ég hafði lært í ML fyrir 20 árum. Bíllinn var ekki steindauður því útvarpið virkaði og perur mælaborðsins lýstu. Rafmagns¬mælirinn sýndi lífsmark rauða striksins og var greinilega á síðustu metrunum. Eftir að hafa endurgert í huganum uppbyggingu og aðgerðir rafgeymsins ályktaði ég að visst flæði væri í geymnum, að hjá úttaki hans myndu rafsellurnar tæmast þegar bíllinn væri gangsettur. Síðan myndi rafmagn streyma frá hinum hluta geymsins að úttakinu allt eftir tregðu/leiðni geymisvökvans, líkt og þegar kallt og heitt vatn blandast. Ég ákvað því að doka við í korter.
Og viti menn, tilgátan stóðst. En nú voru góð ráð dýr. Ekki mátti drepast á bílnum, hann varð að komast á verkstæði -og því var ekið til Borgarnes í stað Reykholts. Þar kom fyrsta sjúkdómsgreiningin. Straumstillirinn (cut-out-ið) átti að hafa gefið sig. Síðar kom í ljós að þetta olli miklu álagi á sjálfan geyminn þannig að hann varð ónýtur og hlóð ekki.
Hringt var í eiganda bílsins sem sagði að nýlega hefði verið gert við straumstillin. Var nú úr vöndu að ráða fyrir bífvélavirkjann sem hafði samband við rafvélavirkja. Hann setti í eitthvert aukastykki sem átti að bjarga málinu í horn. Því miður gleymdist að tengja rafmagnsmælinn aftur þannig að hann sýndi núllstöðu það sem eftir var ferðar.
Haldið var áfram en orðið áliðið og því komið við í Varmalandi og gist þar. Morguninn eftir var lagt af stað í blíðskaparveðri, komið við á veitingahúsi BSRB í Munaðarnesi og snætt þar. Síðan ekið um Bröttubrekku í áttina að Bjarkarlundi. Í Berufirðinum tók ég eftir mér til furðu að bílinn var að verða bensínlaus. Varð að komast á Króksfjarðarnesið en þangað var dágóður spotti. Fyrr en varði var mælirinn kominn í botnstöðu og ók ég eflaust 10-20 km ‚bensínlaus‘ áður en ég kom á bensínsöluna.
Þegar þangað kom fór mig að gruna ýmislegt og ákvað að hafa vaðið fyrir neðan mig, lagði bílnum í smá halla við tankinn til að geta komið mér af stað eftir að hafa dælt á hann – ef bíllin væri rafmagnslaus. Það stóð heima og tankurinn tók varla við meira en 10 lítrum. Bíllinn ræsti sig ekki og þá bjargaði brekkan mér, vélin tók við sér þegar hann rann niður hlíðina ‚fögru‘.
Nú hófst þriðji þáttur þessarar atburðarásar sem minnti á fjallaklifrara sem reyna að ná næsta áfanga eða búðum áður en óveðrið skellur á. Á Króksfjarðarnesinu virtist ekki vera mikið mannlíf svo nú var ákveðið að reyna að ná Bjarkarlundi. Það tókst en mátti ekki tæpara standa því á bílastæðinu þar fyrir utan drapst á bílnum. Leitaði ég ráða á bensínsölunni og þarna byrjaði þáttur þessa manns sem reyndist algjör himnasending. Hringdu í hann Sigvalda á Hafrafelli. Hann bað mig um að koma með bílinn en ég sagði að hann væri steindauður. Bauðst hann þá til að koma. Eftir hálftíma kom hann grá- og síðhærður, í sínum græna sloppi, bláu NAVY-derhúfu á sínum 20 ára sjálfskifta Buick með bæði rafmagnsmælir og startkapal. Kom bílnum í gang og ókum við síðan á sitthvorum bílnum til Hafrafells. Þar hófst bilanagreiningin meðan ég vapp¬aði kringum hann og kona og sonur gengu um í hlaðvarpanum, nutu undurfagurs útsýnis og fylgdust með bústofninum. Ég sá að Sigvaldi hafði viðað að sér fjölda handbóka um bíla á a.m.k. 5 tungumálum, þar á meðal rússnesku.
Eftir 3 tíma kom niðurstaðan: geymirinn er ónýtur, hann hleður ekki, nokkuð sem olli of miklu álagi á straumstillinn sbr. hér að ofan. Hringdi ég suður og var bæði geymir og straumstillir sendur vestur með næstu áætlunarferð. Sigvaldi taldi ótækt að við gætum ekki nýtt tímann á meðan. Hann lánaði okkur því hlaðinn geymi og gátum því ekið um hina fögru Reykhólasveit daginn eftir. Þegar rútan birtist kom vitaskuld í ljós að straumstillirinn passaði ekki. Þetta kom Sigvalda ekki á óvart, sagði að gerð straumstilla færi eftir gerð startara sem afgreiðslumaðurinn fyrir sunnan hefði ekki áttað sig á, að bændur væru orðnir slíku vanir og skelltu upp úr ef hlutirnir pössuðu eins og hönd í hanska.
Nú var úr vöndu að ráða ef við ætluðum að halda för okkar áfram. En Hafrafellsbóndinn dó ekki ráðalaus. Hann bauðst til að lána okkur hleðslutækið, að við gætum farið hvert sem við vildum ef hægt væri að hlaða geyminn yfir nóttina. Og ef mig vantaði verkfæri skyldi hann lána mér þau. Ég varð í senn gáttaður og himinlifandi. Hafði eiginlega ekki kynnst annarri eins manngæsku og heiðarleika frá því ég bjó í Dresden 1975-77 þegar ég í þrígang glataði veskinu mínu en var alltaf skilað aftur.
Ég þakkaði fyrir mig, sagðist ekki þurfa á verkfærum að halda en þiggði með þökkum að fá hleðslutækið lánað og að hann skyldi fá það aftur á bakaleiðinni. Þetta bjargaði okkar ferðalagi þangað til að það fór að rigna. Urðum þá að snúa aftur vegna þurrkanna sem gleyptu rafmagnið. Urðum að snúa við, taka flóabátinn Baldur frá Brjánslæk. Hringdi þaðan í Sigvalda, sagðist þurfa að breyta ferðaáætlun, færum ekki um Reykhólasveitina, hvort hann gæti verið án hleðslutækisins í nokkra daga til. Jú það var ekkert sjálfsagðara. Og þegar ég spurði hvað ég ætti að borga honum fyrir allan greiðann, varð hann álíka vandræðalegur og fólkið í Dresden sem var boðið fundarlaun. Hann vildi eiginlega ekki taka neitt fyrir þessar 10 kvöld- og helgarstundir sem ég hafði haft af honum. En ég gat ekki samvisku minnar vegna annað en sent honum smá glaðning með hleðslutækinu nokkrum dögum síðar.
Eins og áður sagði hafa allar kenningar um samfélagið alveg frá upphafi trúarbragða og heimspeki byggt á vissri manneskjuímynd, að hún sé vond, góð – eða verði vond,góð. Fyrir mig varð þetta atvik með mannkostabóndanum á Hafrafelli ágætis staðfesting á einni slíkri kenningu.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jn 2024 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30