Tenglar

12. apríl 2013 | vefstjori@reykholar.is

Nokkur æviatriði og minningarorð um Lilju á Grund

Hestakonan Lilja Þórarinsdóttir á Grund í Reykhólasveit með fjóra til reiðar.
Hestakonan Lilja Þórarinsdóttir á Grund í Reykhólasveit með fjóra til reiðar.
1 af 6

Lilja á Grund, heiðursborgari Reykhólahrepps, var jarðsungin í Reykhólakirkju í dag og jarðsett í kirkjugarðinum á Reykhólum, höfuðbólinu þar sem hún fæddist fyrir liðlega níu áratugum. Hér ól hún nánast allan aldur sinn, fyrst á Reykhólum og síðan lengst af á Grund, sem á sínum tíma byggðist í landi Reykhóla, aðeins einn kílómetra frá fæðingarstaðnum. Þrjú fyrstu æviárin var heimili Lilju á Hólum í Hjaltadal. Síðar var hún í unglingaskóla á Flateyri og í húsmæðraskólanum á Staðarfelli. Síðustu æviárin var Lilja búsett í Barmahlíð á Reykhólum og hafði glugga sem vissi heim að Grund.

 

Á sjötugsafmæli Lilju árið 1992 heiðraði Reykhólahreppur hana og þakkaði henni farsælt ævistarf og framtakssemi í félagsmálum með nafnbótinni Heiðursborgari Reykhólahrepps.

 

Kristín Lilja Þórarinsdóttir fæddist á Reykhólum 12. júlí 1922 og var því komin hátt á nítugasta og fyrsta aldursár. Foreldrar hennar voru hjónin Steinunn Hjálmarsdóttir og Þórarinn G. Árnason. Lilja missti föður sinn þegar hún var tæplega fimm ára en fósturfaðir hennar var Tómas Sigurgeirsson, seinni maður Steinunnar. Þau Steinunn og Tómas voru alla sína tíð búendur á Reykhólum.

 

Alsystkini Lilju voru fjögur:

  • Þorsteinn Þórarinsson, f. 1923, d. 1998.
  • Sigurlaug Hrefna Þórarinsdóttir, f. 1924, d. 2012.
  • Anna Þórarinsdóttir, f. 1925.
  • Hjörtur Þórarinsson, f. 1927.

Hálfsystkini Lilju voru tvö:

  • Kristín Ingibjörg, f. 1932.
  • Sigurgeir, f. 1933, d. 1993.

 

Lilja tók virkan þátt í bústörfunum heima á ungum aldri eins og tíðkaðist í sveitum og tíðkast enn. Mörg sumur var hún ráðskona í vegavinnu og kynntist þar mannsefni sínu, Ólafi Sveinssyni frá Gillastöðum í Reykhólasveit, f. 1915. Þau giftust á gamlársdag 1955. Ólafur fórst í snjóflóðinu sem féll á útihúsin á Grund í janúar 1995. Hjálmar sonur þeirra lenti líka í flóðinu en fannst á lífi eftir tólf tíma vist undir snjófarginu.

 

Synir Ólafs og Lilju á Grund:

  • Guðmundur, f. 1954, búsettur á Litlu-Grund.
  • Unnsteinn Hjálmar, f. 1957, búsettur á Grund.

Eiginkona Guðmundar er Ásta Sjöfn Kristjánsdóttir. Synir þeirra eru Tindur Ólafur, Ketill Ingi og Kristján Steinn. Fyrir átti Ásta Sjöfn dótturina Heklu Karen, en maki hennar er Hilmir Hjaltason.

 

Lilja var atorkusöm og félagslynd og starfaði í hinum og þessum félögum í héraðinu, svo sem Ungmennafélaginu Aftureldingu, þar sem hún var lengi formaður, Kvenfélaginu Liljunni, Kvenfélaginu Kötlu, Sauðfjárræktarfélaginu, Búnaðarfélaginu og Lionsklúbbnum. Hún var mikil hestakona og einn af stofnendum Hestamannafélagsins Kinnskærs. Lilja söng á sínum tíma í kirkjukór Reykhólakirkju. Hún var um árabil fjallkona Reykhólahrepps á hátíðahöldum 17. júní. Hún skrifaði sögur og greinar í blöð og tímarit.

 

Eftirfarandi klausu getur að líta í frétt frá Sveini Guðmundssyni fréttaritara á Miðhúsum í Reykhólasveit í Morgunblaðinu haustið 1981:

  • Göngur og réttir gengu hér vel og er Kinnarstaðarétt skilarétt en hins vegar Grundarrétt aðal mannfagnaðarréttin. Þau hjón Lilja Þórarinsdóttir og Ólafur Sveinsson bóndi á Grund bjóða öllum réttargestum til veislu og eru oft yfir 100 manns sem þiggja þar veitingar á réttardaginn.

 

Sex minningargreinar um Lilju heitna á Grund birtast í Morgunblaðinu í dag, 12. apríl, á útfarardegi Lilju. Höfundar þeirra eru Ásgeir Haukur Einarsson, Bjarni Pétur Magnússon, Björk Stefánsdóttir og fjölskylda, Hjörtur Þórarinsson, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir og Þórólfur Halldórsson.

 

Bróðir Lilju, Hjörtur Þórarinsson, fyrrum skólastjóri, segir þar m.a.: 

  • Það eru orð að sönnu að Lilja hafi verið útistelpa. Meðan heyjað var að stórum hluta á engjum var það sjálfgefið að Lilja annaðist að „teyma á milli“. Heybandið var flutt á þremur eða fjórum hestum, þá flutninga annaðist hún. Hestarnir voru hennar líf og yndi. Í annríki dagsins og miklum störfum innanhúss átti hún það til að segja við Óla sinn: „Ég er farin á hestbak“ og svarið var alltaf það sama hjá honum: „Já, gerðu það.“
  • Búrekstur á Grund gekk með miklum ágætum. Arðsemi búsins var í hámarki, hirðusemi og hreinlæti við mjólkurafurðir margverðlaunað. Þau hjónin stóðu saman að vexti, viðhaldi og velgengni bús og búsmala. Búsmali þeirra var annað og meira en búfé og skynlausar skepnur og númer á búfjárskýrslu.
  • Lilja var mjög félagslynd og hafði mikla ánægju af samvistum við annað fólk. Í áðurnefndu viðtali sagðist hún hafa verið í öllum félögum sem til voru í sveitinni. Í kirkjukórnum var hún frá 1940. Auk þess var hún meðhjálpari þar í mörg ár.
  • Gestrisni hennar og þeirra hjóna var ótakmörkuð. Ógleymanlegar eru veitingar á haustleitardeginum á Grund. Gestabókin skráir allt að 100 manns á hverju hausti.

Björk Stefánsdóttir skrifar m.a.:

  • Síðasta sumar tókum við nokkra göngutúra, fórum upp á Grund og í búðina, en mest er ég glöð að hafa tekið þig heim í kaffi, við sátum á pallinum og þú spáðir í bolla fyrir mig og það var mikið hlegið og rosalega gaman. Fyrir nokkrum dögum áttum við gott spjall saman og þú varst að segja mér frá því þegar þið systkinin voruð krakkar og um lífið í sveitinni, talaðir mikið um föður þinn sem þú sast hjá á hól við bæinn þegar hann var orðinn veikur og hvað honum hafi fundist gott að hafa ykkur börnin hjá sér.
  • Ég trúi því að þú sért búin að hitta alla, sért komin til Óla, foreldra og systkina, knúsaðu Ebbu ömmu frá mér, ég vona að ég verði svona flott kona eins og þið. Takk fyrir allt, bæði dúka, myndir, hlýju og góðmennsku.
  • Ég þakka fyrir að hafa fengið að vera með þér þína síðustu stund hér.

 

Hér má lesa allar minningargreinarnar um Lilju í Morgunblaðinu í dag.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31