Norðursalt á Reykhólum: Pökkunin flutt suður
Eins og hér var greint frá hefur Norðursalt auglýst Sæmundarhúsið á Reykhólum til sölu og jafnframt hafa tvö störf við pökkun verið flutt suður. „Þessari breytingu fylgir ákveðin hagræðing,“ segir Garðar Stefánsson hjá Norðursalti um flutninginn á pökkuninni. „Með þessu móti getum við betur einbeitt okkur að sjálfri framleiðslunni á Reykhólum, bæði auknum afköstum og gæðum vörunnar. Það hefur verið mikið álag á starfsfólkinu að vera með bæði pökkunina og vörulager í verksmiðjuhúsinu, fyrir utan rýmið sem þetta tók frá nauðsynlegri framtíðarstækkun á plássi fyrir framleiðsluna,“ segir Garðar.
„Þetta reyndist vandasamara en við reiknuðum með. Við vorum t.d. með starfsfólk sem var búsett í Reykjavík og þurfti að keyra fram og til baka til vinnu á Reykhólum. Það var bæði kostnaðarsamt og oft erfitt, enda hafa veðrið og færðin ekki verið upp á það besta. Með því að flytja pökkunina suður getum við sett enn frekari einbeitingu í framleiðslu á hágæðasalti á Reykhólum,“ segir hann.
Varðandi Sæmundarhúsið segir Garðar: „Vegna húsnæðisskorts hefur verið erfitt að manna stöður á Reykhólum og við hugsuðum þetta hús fyrir starfsfólk okkar. Við komumst hins vegar að þeirri niðurstöðu að það væri of kostnaðarsamt fyrir okkur að byggja húsið í rauninni frá grunni. Þess vegna ákváðum við að stöðva framkvæmdirnar og setja húsið á sölu.“
Með flutningnum á pökkuninni minnkar jafnframt þörfin á húsnæði fyrir starfsfólk á Reykhólum. Garðar leggur á það áherslu, að enda þótt pökkunin flytjist burt sé markmiðið eins og endranær að framleiða besta salt í heimi á Reykhólum. „Reykhólar eru stór þáttur í uppruna okkar fyrirtækis og lykilþáttur í öllu sem við gerum. Það er ekki að fara að breytast,“ segir Garðar að lokum.
Sjá einnig:
► 11.08.2014 Lúxusvandi á Reykhólum