4. nóvember 2009 |
Nú er líka tekið við ónýtum fatnaði og öðrum vefnaði
Sú breyting hefur orðið á fatamóttöku Rauða krossins, að nú tekur hann við öllum fatnaði og vefnaðarvörum og jafnt hvort heldur sem fatnaðurinn er heill eða ekki. Jafnvel er það sem kallast mætti ónýtir fataræflar þegið með þökkum. Líka er tekið á móti vefnaðarvöru eins og gluggatjöldum, rúmfötum, borðdúkum, handklæðum og öðru. Það sem er ekki nýtanlegt sem fatnaður verður endurunnið, segir sr. Óskar Ingi Ingason, formaður Búðardalsdeildar Rauða kross Íslands, en undir hana heyrir Reykhólahreppur. Söfnunargámur fyrir fatnað stendur við björgunarsveitarhúsið rétt á móti gámasvæðinu neðan við þorpið á Reykhólum. Umsjónarmaður fatagámsins á Reykhólum, Guðjón D. Gunnarsson, biður fólk um að ganga betur frá fatnaðinum sem þar er settur en iðulega er gert.
„Það kemur mikið af fötum en því miður er mikið af þeim illa frágengið eða ófrágengið, ýmist í opnum pokum eða alls ekki í pokum. Þetta verður þess vegna blautt og óhreint í gámnum. Skór og sokkar sem eiga saman verða viðskila. Mikilvægt er að pakka þessu vel inn í góða poka, ekki innkaupapoka úr verslunum, og loka þeim vel", segir Guðjón.