Tenglar

5. maí 2013 | vefstjori@reykholar.is

Nú er það svart maður - og lognið algert

1 af 4

Veturinn hefur verið einstaklega snjóléttur á Reykhólum. Var - myndi kannski einhver segja núna þegar komið er fram í maí. Jörð hefur verið alauð og þannig var hún í gær eins og lengi undanfarið. En upp úr miðnætti fór að snjóa í logni og drífan minnti á hinn klassíska jólasnjó og snemma í morgun var sjö sentimetra jafnfallinn snjór á Reykhólum.

 

Gæsir sem hafa verið á beit á túnum flugu ráðvilltar fram og aftur í leit að lendunum sem voru þarna í gær. Stelkurinn í litlum hópum og vængjaslátturinn jafnvel ennþá hraðari en venjulega.

 

Nú er það svart maður, allt orðið hvítt, var stundum sagt þegar fólk vaknaði að morgni og veröldin hafði um nóttina tekið stakkaskiptum með þessum hætti.

 

Reykhólar hafa naumast verið kallaðir lognsælasti staðurinn á jarðríki. Líklega er fátítt að þar skuli mælast svo fullkomið logn eins og lengi í nótt. Ekki aðeins að meðalvindur í fjóra klukkutíma samfleytt (og hugsanlega vel á fimmta tíma) skuli hafa verið 0 metrar á sekúndu, heldur mældist „mesta hviða“ á þeim tíma 0 metrar á sekúndu (sjá mynd nr. 3). Eiginlega merkilegt að vindmælirinn á sjálfvirku veðurstöðinni neðan við Reykhólaþorp skyldi ekki bila af undrun.

 

Myndirnar sem hér fylgja voru teknar á Reykhólum á níunda tímanum í morgun. Ekki er að marka stéttina vinstra megin - undir henni eru hitalagnir.

 

 

Viðauki tólf tímum seinna:

 

Síðdegis var allur snjórinn horfinn, jörðin eins marauð og hún var í gær. Stuttu eftir að myndirnar voru teknar í morgun skein sólin glatt svolitla stund og fegurð hins hvíta láðs í kyrrðinni verður ekki lýst. Svo fór að blása og hvessa með snörpum rigningarskúrum og nokkurra stiga hita og þá má nýfallið dúnsnævi biðja fyrir sér.

 

Sjá mynd nr. 4 sem nú hefur verið bætt hér við.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31