Ný bók: Strandir 1918
Út er komin bókin Strandir 1918 Ferðalag til fortíðar.
Rafrænt útgáfuhóf var haldið sunnudaginn 6. desember.
Árið 1918 var merkilegt ár í sögu þjóðarinnar. Ísland fékk fullveldi og ýmsir stórviðburðir settu svip á mannlíf og samfélag. Hér er athygli beint að viðburðum og daglegu lífi á Ströndum á þessum tíma, birtar dagbækur, ferðasögur og fræðigreinar. Fjallað er um líf og störf fólks í Strandasýslu fyrir rúmri öld, á tímum sem standa okkur býsna nærri. Samt er margt við daglegt amstur fólks fyrir 100 árum framandi í samtímanum.
Ritstjóri er Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur og hún er einnig höfundur greinar í bókinni, eins og Skagfirðingurinn Eiríkur Valdimarsson, Hafdís Sturlaugsdóttir og Jón Jónsson. Þá skrifar forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson formála að bókinni.
Einnig er birt ferðasaga eftir Guðmund Hjaltason og búnaðaryfirlit eftir Sigurð Sigurðsson sem ferðaðist um allar Strandir. Þá eru tvö dagbókabrot að finna í bókinni, eftir Níels Jónsson á Grænhóli á Gjögri og Þorstein Guðbrandsson á Kaldrananesi.
Með útgáfu bókarinnar Strandir 1918 er rekinn endahnútur á samnefnt verkefni sem hefur staðið yfir frá árinu 2018. Sauðfjársetur á Ströndum og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum - Þjóðfræðistofa eru útgefendur bókarinnar.
Bókin gefur góða innsýn í daglegt líf og hversdagsleg störf fólks á Ströndum á sögulegum tímum og er áhugaverð lesning fyrir alla sem hafa áhuga á þjóðlegum fróðleik, sögu og náttúru.
Bókin er einungis seld beint frá Sauðfjársetrinu á Ströndum og er hægt að tryggja sér eintak í síma 693-3474, á saudfjarsetur@saudfjarsetur.is, eða á Facebook-síðu Sauðfjársetursins. Hægt er að fá bókina senda hvert á land sem er.