Ný könnun: Vestfirðir mest spennandi til ferðalaga
Vestfirðir mest spennandi
Þegar spurt var hvaða þrír staðir eða svæði fólki fyndist mest spennandi nefndu flestir Vestfirði, eða tæplega helmingur svarenda. Suðurland og Norðurland eystra komu þar nokkuð á eftir.
Tjaldsvæði vinsælasti gistimátinn
Þrír af hverjum fimm ætla að gista í tjaldi, fellihýsi eða húsbíl, tveir af hverjum fimm hjá vinum og ættingjum og þriðjungur í sumarhúsi í einkaeigu eða orlofshúsi félagasamtaka. Suðurland og Norðurland verða fjölsóttustu landshlutarnir, samkvæmt könnuninni og sú afþreying sem landsmenn eru líklegastir að greiða fyrir er sund, jarðböð, veiði, söfn og sýningar.
Samdráttur í utanferðum
Samkvæmt könnuninni ætlar fjórðungur landsmanna að ferðast bæði innanlands og utan og 5% eingöngu utanlands. Átta prósent ætla hins vegar ekki að ferðast. Þannig ætla 3 af hverjum 10 að ferðast utanlands sem eru vísbendingar um verulegan samdrátt miðað við fyrri kannanir.
Flest ferðalög munu eiga sér stað seinni hlutann í júlí en þá ætla þrír af hverjum fimm landsmanna að ferðast. Helmingur ætlar hins vegar að ferðast fyrri partinn í júlí eða ágúst, en fjölmargir þó á öðrum tímabilum.
Um könnunina
Könnunin var unnin sem net- og símakönnun 20.-29. apríl og var aðferðafræðinni skipt eftir aldurshópum. Spurningar fyrir aldurshópinn 18-67 ára voru lagðar fyrir í spurningavagni MMR og var svarað á Internetinu. Könnunin náði til 1400 manna úrtaks úr þjóðskrá og var svarhlutfall 60,9%. Aldurshópurinn 68-80 ára var spurður símleiðis, byggt var á 135 manna úrtaki og var svarhlutfall 65,2%. Framkvæmd og úrvinnsla var í höndum MMR.
Könnunin í heild: Ferðaáform Íslendinga 2009 (pdf-skjal).
Á meðfylgjandi mynd sem Árni Geirsson tók er horft yfir Gilsfjörð, hlið Vestfjarða (smellið á til að stækka). Þar er komið úr Dalabyggð inn í Reykhólahrepp og þar með inn á Vestfjarðakjálkann. Þarna eru aðeins 200 km frá Reykjavík og alla leið á bundnu slitlagi. Miklu fleiri myndir sem Árni hefur tekið fljúgandi á svifvæng sínum yfir Reykhólahreppi má sjá undir Ljósmyndir > Ýmis myndasöfn > Árni Geirsson í valmyndinni hér vinstra megin.
08.05.2008 Frjáls eins og fuglinn yfir Reykhólasveit