Ný lán til að auðvelda kynslóðaskipti
„Þetta er að braggast, en bújarðasala datt alveg niður 2008,“ segir Magnús Leópoldsson hjá Fasteignamiðstöðinni, sem sérhæfir sig í sölu bújarða. Hann segir að núna sé mikill áhugi á jarðakaupum og margir nefni ný lán Byggðastofnunar. Til að greiða fyrir kynslóðaskiptum í landbúnaði býður stofnunin nú sérstök lán til jarðakaupa, en skilyrði fyrir slíku láni er að á viðkomandi jörð sé stundaður búskapur í atvinnuskyni og að á jörðinni sé föst búseta. Lánin eru verðtryggð jafngreiðslulán til allt að 25 ára með 5% vöxtum. Möguleiki er á að semja um að fyrstu þrjú árin verði aðeins greiddir vextir.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Elín Gróa Karlsdóttir, forstöðumaður fyrirtækjasviðs Byggðastofnunar, segir að búskapur standi illa undir mjög háum fjármagnskostnaði því að greiðslur fyrir afurðir skili sér seint, einkum í sauðfjárbúskap. „Það er heilmikil þörf á að það haldist búskapur á þessum jörðum,“ segir hún um bújarðir þar sem líður að kynslóðaskiptum.