Ný umferðarskilti um allt Reykhólaþorp
Á næstsíðasta fundi sveitarstjórnar Reykhólahrepps var lagt fram erindi frá Björk Stefánsdóttur og Herdísi Ernu Matthíasdóttur á Reykhólum varðandi hraðakstur og umferðaröryggi í þorpinu. Sveitarstjórn samþykkti kaup á tveimur umferðareyjum til að koma upp hraðahindrun á Hellisbraut, enda fellur sá vegur undir sveitarfélagið.
Þeim hefur þegar verið komið upp, auk þess sem ungmenni máluðu og komu víðs vegar um bæinn upp umferðarskiltum, með góðri aðstoð fullorðinna, jafnframt því sem talan 30 (leyfilegur hámarkshraði) er komin á veginn sjálfan á einum stað, þar sem löngum hefur verið mikið um hraðakstur. Auk þess hefur lögreglan verið við hraðamælingar í þorpinu og má vænta þess áfram.
Varðandi Karlseyjarveg, sem er aðalvegurinn gegnum Reykhólaþorp, var ákveðið að koma erindi Bjarkar og Herdísar á framfæri við Vegagerðina, þar sem vegurinn heyrir undir hana, og kanna möguleika hennar á því að koma fyrir einhvers konar hraðahindrun, þar sem vegurinn liggur við lóðamörk í íbúabyggð.
Á myndunum sem hér fylgja má sjá nokkur af skiltunum og vegmerkingunni og hraðahindrunum. Í lokin eru myndir sem teknar voru þegar börn og fullorðnir voru að útbúa skiltin.