Ný vestfirsk framleiðsla: Kalkþörungar í garða
Fyrirtækið Hafkalk ehf. á Bíldudal hefur byrjað sölu og dreifingu á kalkþörungum framleiddum hjá Íslenska kalkþörungafélaginu. Um er að ræða jarðvegsbætiefni fyrir matjurtagarða og grasfleti og fæst varan í Bónusverslunum í 5 og 10 kg fötum. Hér er á ferðinni íslenskur steinefnaáburður af mestu gæðum fyrir garða og matjurtir, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða.
Þar kemur eftirfarandi einnig fram:
Virkni kalkþörunga er meiri en jarðkalks og skeljasands til að bæta jarðveg. Kalkþörungar eru greinóttir með mikið yfirborð og leysast því fljótt upp í jarðveginum. Því þarf mun minna magn á hvern fermetra. Fyrir utan að bæta mikilvægum steinefnum í jarðveginn og hækka sýrustigið, þá þrífst mosi illa í heilbrigðum jarðvegi og því er þetta algjörlega náttúrleg aðferð til að losna við hann. Kalsíum er eitt af þeim frumefnum sem hafa mikið næringargildi fyrir jurtir. Kalkið bætir jarðveginn og eykur samloðun fastra efna, þannig að holrými myndast fyrir vatn, loft og rætur. Fyrir utan kalsíum sjá kalkþörungarnir gróðrinum fyrir meira en 70 mikilvægum stein- og snefilefnum. Ef illgresi er mikið í garðinum eru miklar líkur á því að kalk og önnur steinefni vanti í jarðveginn. Efnisnotkun er um 6-7 kg á hverja 100 fermetra.
Hafkalk er einnig að vinna að vöruþróun á kalkþörungum til manneldis og verða þeir vonandi í boði fyrir íslenska neytendur von bráðar.
Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða vann að undirbúningi verkefnisins ásamt forsvarsmönnum fyrirtækjanna. Verkefnisstjórar atvest á Patreksfirði, Guðrún Eggertsdóttir og Magnús Ólafs Hansson, hafa unnið að verkefninu ásamt Jörundi Garðarssyni, eiganda Hafkalks. Jörundur er jafnframt gæðastjóri Kalkþörungaverksmiðjunnar á Bíldudal, sem er í eigu Íslenska kalkþörungafélagsins ehf.