Tenglar

15. september 2011 |

Nýi framkvæmdastjórinn kemur frá Olíudreifingu

Einar Sveinn Ólafsson.
Einar Sveinn Ólafsson.

Einar Sveinn Ólafsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar hf. á Reykhólum og kemur fljótlega til starfa. Atli Georg Árnason lét af störfum fyrir réttum þremur mánuðum og síðan hefur Þorgeir Samúelsson framleiðslustjóri séð um daglegan rekstur. Eftir viðræður við eigendur og stjórnarmenn verksmiðjunnar er Einar Sveinn bjartsýnn á framtíð fyrirtækisins og getur alveg hugsað sér að stjórna því næstu þrettán árin, eins og fram kemur hér á eftir. Tæplega þrjátíu sóttu um starf framkvæmdastjóra og hefur úrvinnsla umsókna tekið langan tíma. „Ég hef alltaf verið ráðinn þegar ég hef sótt um starf“, segir Einar Sveinn í samtali við Reykhólavefinn.

 

Um árabil hefur Einar Sveinn verið stöðvarstjóri innflutningshafna Olíudreifingar ehf. og rekstrarstjóri birgðastöðva fyrirtækisins. Núna er hann búsettur í Hafnarfirði ásamt fjölskyldu sinni en flyst mjög fljótlega vestur á Reykhóla. Eiginkona Einars Sveins er Hafdís Gísladóttir, matráður í skóla í Kópavogi. Þau eiga tvö börn, 22 ára dóttur og 20 ára son.

 

Einar Sveinn er rétt að verða fimmtíu og fjögurra ára, fæddur í Vestmannaeyjum, en ættir hans liggja í Eyjum og Dalasýslu. Hann er upphaflega vélfræðingur að mennt en hefur síðar stundað nám af ýmsu tagi í Endurmenntun Háskóla Íslands samhliða vinnu. Þar er um að ræða verkefnastjórn og leiðtogaþjálfun, rekstrar- og viðskiptanám og loks lauk hann námi í gæðastjórnun á liðnu vori.

 

„Ég hef fengist við allt milli himins og jarðar, unnið í sveit og við fiskvinnslu og var vélstjóri á sjó hjá Haraldi Böðvarssyni á Akranesi. Var við að byggja upp fiskimjölsverksmiðju í Grundarfirði og eftir það við framleiðslu á fiskafóðri á Akureyri í þrettán ár. Síðan var ég ráðinn svæðisstjóri fyrir Olíudreifingu á Norðurlandi árið 1997 en var fljótlega boðinn flutningur til Reykjavíkur og hef verið stöðvarstjóri innflutningshafna og rekstrarstjóri birgðastöðva fyrirtækisins fram til þessa“, segir Einar Sveinn.

 

„Helsta áhugamálið núna er að byggja sumarbústaðinn okkar að Laugum í Sælingsdal í Dalasýslu og rækta landið. Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á nærsamfélaginu þar sem ég hef verið hverju sinni og verið virkur í foreldrafélögum, skólanefndum og skólaráði. Í Grundarfirði sat ég í byggingar- og skipulagsnefnd, á Akureyri var ég í hafnarstjórn í þrettán ár og þar af stjórnarformaður í fjögur ár. Ég var í ferlinefnd fatlaðra í Kópavogi og hef setið í stjórnum íþróttafélaga, bæði á Snæfellsnesi og Akureyri. Yfirleitt má segja að ég hafi haft skoðanir á hlutunum í kringum mig.“

 

Núna er Einar Sveinn að semja um starfslok hjá Olíudreifingu. „Ég kom á Reykhóla á laugardaginn og skoðaði íbúðarhúsið jafnframt því sem ég skrapp í berjamó. Núna um helgina kem ég að að hreingera húsið og stefni að því að flytja búslóðina vestur á Reykhóla um helgina eftir rúma viku. Ég tek við starfinu um leið og ég losna hjá Olíudreifingu og síðan kemur konan mín væntanlega í desember.“ Enn er ekki ljóst hvort sonur þeirra flyst líka vestur.

 

„Ég er fullur tilhlökkunar“, segir Einar Sveinn þegar hann er spurður hvernig nýja starfið leggist í hann. „Í fyrri störfum hef ég komið nálægt mörgu hliðstæðu því sem hér er að fást við. Vinnsluferli af þessu tagi þekki ég vel úr fiskimjölinu og fiskafóðrinu. Ég sé fullt af tækifærum og sóknarfærum fyrir Þörungaverksmiðjuna og Reykhólasvæðið og vona að mér takist að ganga hér í takt og fá fólk til að marsera með mér að gera góða hluti. Ég hef orðið þess var að eigendur verksmiðjunnar ætla sér að bæta í. Það er eindreginn ásetningur þeirra, eftir því sem stjórnarmenn segja mér.“

 

Einar Sveinn kveðst hafa orðið var við orðasveim og ótta þess efnis að allt sé að fara fjandans til hjá Þörungaverksmiðjunni og til standi einfaldlega að hætta starfseminni. Hann segir af og frá að neitt slíkt hafi komið fram í viðræðum hans við stjórnarmenn fyrirtækisins heldur þvert á móti.

 

„Stjórnarmenn verksmiðjunnar spurðu mig hvað ég hygðist vera lengi í starfi á Reykhólum. Svar mitt var á þessa leið: Ég var þrettán ár á Akureyri, hef verið þrettán ár hjá Olíudreifingu og eftir þrettán ár verð ég 67 ára. Þegar ég næ þeim aldri stefni ég að því að snúa mér eingöngu að áhugamálum mínum.“

 

Athugasemdir

Harpa Eiríksdóttir, fimmtudagur 15 september kl: 21:55

Til hamingju með starfið

Solla Magg, fstudagur 16 september kl: 01:29

Hjartanlegar hamingjuóskir með starfið.

Eyvi Hólakaup, fstudagur 16 september kl: 07:50

Til hamingju og velkomin öll fjölskyldan í hópinn

Guðjón D. Gunnarsson, fstudagur 16 september kl: 12:25

Til hamingju með starfið. Verið öll velkomin vestur.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31