Tenglar

24. janúar 2014 | vefstjori@reykholar.is

Nýjungar í dagskránni á þorrablótinu

Steinunn, Andrea, Sandra, Katla, Ásta. Af Facebook-síðu blótsins.
Steinunn, Andrea, Sandra, Katla, Ásta. Af Facebook-síðu blótsins.

Að einhverju leyti verða fetaðar nýjar leiðir í skemmtidagskránni á þorrablótinu á Reykhólum þetta árið og verður ekki greint frá þeim hér fyrirfram. Annars eru þar að venju leikþættir og gamanmál af ýmsu tagi. Rosaleg vinna en óskaplega skemmtilegt, segir fólk í blótsnefnd um undirbúninginn, við erum líklega með nokkuð svipaðan húmor.

 

Blótið verður annað kvöld, laugardagskvöld, og haldið að venju í íþróttahúsinu á Reykhólum. Húsið verður opnað kl. 19.30 en borðhaldið hefst kl. 20.30 stundvíslega. Miðasala hefur verið nokkuð góð þó að ólíklegt sé að aðsóknarmetið í fyrra verði slegið.

 

Alltaf eru einhverjir sem panta ekki heldur mæta bara og borga við innganginn og það er í góðu lagi. Miðinn á borðhaldið, skemmtidagskrána og ballið á eftir kostar kr. 6.000 eins og í fyrra. Aldurstakmark er 18 ár. Ef aðeins er farið á ballið þar sem hljómsveitin Span leikur fyrir dansi er verðið kr. 2.500. Ballið byrjar kl. 23.

 

Lionsmenn annast matinn á blótinu. Engin hætta er á því að nokkur maður fari svangur frá borðhaldinu, að sögn Ingvars Samúelssonar matráðs sem þar stjórnar verki. Á borðum verður hangikjöt í sneiðum og bitum, sviðasulta bæði ný og súr, svínasulta, lundabaggar, nýtt slátur, sviðakjammar og sviðalappir, súrir pungar, súr hvalur, kæstur hákarl, rúgbrauð, flatkökur, hveitikökur, rófustappa, kartöflumús og kartöflur í hvítvínssósu, og mun hér þó líklega einhverju gleymt.

 

Þorrablótsnefndina þetta árið skipa (í stafrófsröð) Andrea Björnsdóttir, Ásta Sjöfn Kristjánsdóttir, Hjalti Hafþórsson, Katla Ingibjörg Tryggvadóttir, Sandra Rún Björnsdóttir, Steinunn Ólafía Rasmus, Styrmir Sæmundsson og Sveinn Hallgrímsson.

 

Fylgist með á Facebook-síðu blótsnefndarinnar: Þorrablót Reykhólahrepps.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31